miðvikudagur, 14. apríl 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mokveiði í netin á Ebba AK

Guðjón Guðmundsson
31. mars 2021 kl. 15:00

Eymar stjórnar krananum við löndun úr mettúrnum. Mynd/Skessuhorn/mm.

Eymar Einarsson og félagar með persónulegt met

„Ég er bara dauðuppgefinn eftir tvo síðustu túrana. Þetta var bara ágætt fyrir okkur þrjá,“ sagði Eymar Einarsson þegar hann var nýbúinn að landa eftir síðasta túrinn á vetrarvertíð. Eymar er af Skaganum og gerir út Ebba AK 37 á net og á sæbjúgu.

Vel hefur gengið á netunum og greindi fréttavefurinn Skessuhorn meðal annars frá því að Eymar og félagar hefðu slegið persónulegt met í síðustu viku þegar þeir komu með fulllestaðan bát af stórþorski, alls 22,6 tonn.

Með honum í mettúrnum voru Guðmundur Sigurbjörnsson og Marinó Freyr Jóhannesson. Eitthvað höfðu menn upp úr krafsinu því allt var selt á markaði og fengust um 300 krónur fyrir kílóið. Ætla má að aflaverðmætið þennan daginn hafi því verið tæpar sjö milljónir króna.

Einungis ánægjan

„En það er bara ánægjan af veiðunum sem við sækjumst eftir og það þýðir lítið að hugsa um peninga. Við skiljum það vel að það gengur illa að selja þetta á góðum verðum því neytendur fá ekki lengur að borða þetta úti. Það er allt lokað. Fólk verður að skilja það að við erum í Paradís hérna á Íslandi. Við eigum að skammast okkar fyrir þennan aumingjalega væl í okkur. En það má segja að hún hefur heldur betur eflst þjóðaríþróttin.“

Lagðar voru fimm trossur í mettúrnum. Eymar segir að mikið hafi komið í tvær trossur en þó sérstaklega eina.

„Við ætluðum varla að ná netinu í gegn á spilinu. Þetta er tveggja handa og mjög fallegur fiskur og ekki fyrir neina aumingja að standa í þessu. Það er alltaf svona mokstur á þessum tíma. Þess vegna hef ég líka verið rólegur í vetur og fór ekkert á línu því ég hef ekki efni á því. Mannahaldið kostar líka sitt og ég kom þessu bara ekki heim og saman. En það er ekkert annað í boði en að nýta sér það þegar þessi gluggi opnast,“ segir Eymar sem man tímana tvenna úr sjósókn og útgerð. Hann hefur verið til sjós frá árinu 1967  og var á sínum tíma stórtækur í lúðuveiðum áður en þær voru bannaðar í ársbyrjun 2012. Talan 37 í skráningarnúmeri Ebba AK vísar reyndar til upphafs ferils Eymars á lúðuveiðum en hann þurfti að leggja línu 37 sinnum áður en lúðan beit á.

Sæbjúgu eftir páska

„Það er óstjórnlegt magn af þorski þessa dagana. Ég á ekki til orð yfir lóðningarnar af þorski í gær. Það litu hérna við tveir togaraskipstjórar til margra ára þegar við vorum að landa. Þeir sögðust aldrei hafa aðra eins þorskgegnd. Og þetta er eingöngu stór fiskur. En við höfum ekki fengið neina ýsu en hún er hérna utar.“

Hann hefur ekki farið langt að sækja þorskinn á þessari vertíð, ekki nema 5-6 mílur frá Akranesi. „Þetta er búið að vera fínt. Við vorum með átta tonn í einni trossunni af 10 kíló þorski plús, þetta var alveg nóg og næstum of mikið.“

Eymar hefur stundað sæbjúgnaveiðar samfleytt í á tíunda ár. „Ég fer á sæbjúgu eftir páska. Við tökum upp netin í fyrramálið og látum gott heita á þessari þorskvertíð. Þá er líka páskastopp núna og þá þurfum við að fara svo langt eftir þessu að ég nenni því ekki.  Við ætlum að geyma það sem við eigum óveitt í bolfiski þar til í maí eða júní og gera þetta þá í blíðunni. En sæbjúgnaveiðar eru léttasta vinna sem ég hef kynnst enda erum við barar tveir á þeim veiðum,“ segir Eymar.

Hann lítur á sæbjúgnaveiðarnar sem verkefni fyrir bátinn. Það sé ekki að öðru að hverfa. Hafnarnes-Ver kaupir aflann, verkar hann og selur.

Eymari er ýmislegt til lista lagt. Hann hefur gert hagleikshluti úr ígulkerjum og smíðað úr járni. Hann segist ekki nenna lengur að eiga við ígulkerin en langar að koma með kóral í land en það sé harðbannað eins og annað. „Það má ekki koma með hann í land þótt hann sé dauður. Vitleysan í fólki er stundum með ólíkindum. Menn eiga auðvitað ekki að vera að djöflast á kóralnum en ætti að mega að koma með það í land sem kemur upp með veiðarfærunum.“