laugardagur, 18. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mokveiði á kolmunna í íslenskri lögsögu

17. júlí 2017 kl. 16:05

Börkur NK ásamt fleiri skipum á loðnumiðunum fyrir skemmstu. (Mynd: Hilmar Örn Kárason)

Börkur NK fann mikið af stórum og fallegum kolmunna í íslensku lögsögunni

Börkur NK landaði í gær 2.200 tonnum af kolmunna í Neskaupstað, en frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.  Skipið var 8 daga í veiðiferðinni og fór víða en megnið af aflanum fékkst í íslenskri lögsögu. 

Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki, segir í fréttinni að kolmunninn hafi verið stór og fallegur. 

„Við hófum veiðiferðina á að leita í Rósagarðinum í tvo daga með litlum árangri. Síðan var haldið í færeysku lögsöguna en þar hafði verið einhver veiði. Sáralítið fékkst þar þannig að við héldum aftur inn í íslensku lögsöguna og leituðum norðar en áður. Þar fundum við kolmunnann og var talsvert að sjá. Þetta var norðaustur af Rauða torginu, um 100 mílur nánast beint út af Norðfjarðarhorni. Aflinn sem þarna fékkst var góður, allt upp í 500 tonn á sólarhring. Við fengum því megnið af aflanum sem við komum með að landi á þremur og hálfum sólarhring á þessu svæði,“ segir Hjörvar.

Börkur hélt til kolmunnaveiða á ný strax að lokinni löndun „enda full ástæða til að nota tímann vel áður en makríl- og síldarvertíð hefst,“ segir þar ennfremur.