miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mokveiði á makrílmiðunum

28. ágúst 2020 kl. 15:51

Beitir NK að dæla makríl. MYND/Heimir Svanur Haraldsson

Tvö af skipum Síldarvinnslunnar landa erlendis þar sem veiðin er umfram afkastagetu fiskiðjuversins í Neskaupstað.

Mjög góð makrílveiði var í Smugunni í gær og eru þrjú skipanna sem tengjast Síldarvinnslunni á landleið en Bjarni Ólafsson AK lýkur við að landa rúmlega 1000 tonnum í Neskaupstað í dag. 

Beitir NK er á leið til Neskaupstaðar með 1700 tonn og er væntanlegur síðdegis. Margrét EA er á leið til Færeyja með 1260 tonn og Börkur NK er á leið til Florö í Noregi með 930 tonn. 

Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar en ástæðan fyrir löndunum erlendis er sú að veiðin er umfram afkastagetu fiskiðjuversins í Neskaupstað. 

Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti

„Þessi 1700 tonn sem við erum með er gæðahráefni. Þetta er átulaus fiskur og meðalþyngdin er yfir 500 grömm. Þetta gerist vart betra. Það var mjög góð veiði í gær og þá tókum við síðasta holið. Þetta var 400 tonna hol. Við höfðum dregið í töluverðan tíma þegar fiskurinn birtist allt í einu og þessi 400 tonn komu í trollið á einum og hálfum tíma.  Aflinn sem við erum með fékkst í fimm holum;  við tókum þrjú hol og Börkur tvö. Samvinna skipanna sem veiða á vegum Síldarvinnslunnar hefur gengið afar vel alla vertíðina og þetta er mjög skynsamlegt fyrirkomulag ekki síst þegar langt er að sækja. Þegar við komum til Neskaupstaðar í dag er verið að klára að vinna úr Bjarna Ólafssyni þannig að þetta smellpassar allt saman,“ segir Tómas.

Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki segir að aflinn hafi fengist á skömmum tíma. 

„Aflinn fékkst í tveimur holum, annað tókum við og hitt tók Margrét. Við toguðum í 55 mínútur og þegar við vorum búnir að dæla aflanum um borð beið Margrétin eftir að við dældum úr trollinu hjá þeim. Við munum koma til Florö klukkan níu í kvöld og þar vinna þeir 50 til 70 tonn á tímann þannig að við verðum búnir þar á morgun. Þegar svona gengur á miðunum er þetta bara draumur í dós,“ segir Hjörvar.