laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mokveiði á Melsekk

14. apríl 2014 kl. 21:47

Barði NK 120

Fiskað á daginn og aflinn unninn á nóttunni

Frystitogarinn Barði kom til Neskaupstaðar í morgun með nálega fullfermi af gullkarfa. Áður hafði skipið millilandað fullfermi í Hafnarfirði þannig að í þessari veiðiferð var aflinn 600 tonn upp úr sjó, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar.

Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri sagði að í reynd hefði verið mokveiði allan túrinn en skipið var þrjár vikur á veiðum. „Við veiddum allan tímann á Melsekk á Reykjaneshryggnum sem er um 80 mílur beint úti af Reykjanesi og aflinn var nánast eingöngu gullkarfi,“ sagði Bjarni Ólafur. „ Það var fiskað á daginn og aflinn unninn á nóttunni og það var svo sannarlega nóg að gera enda má segja að í veiðiferðinni hafi fengist fullfermi í tvígang.“

Barði mun halda til veiða á ný næstkomandi laugardag og verður það blönduð veiðiferð sem standa mun yfir fram yfir mánaðamót. Næsti túr þar á eftir mun svo væntanlega verða úthafskarfatúr.