laugardagur, 27. febrúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mönnun íslenskra fiskiskipa

14. janúar 2021 kl. 09:00

Valmundur Valmundsson

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, skrifar.

Árið 2000 voru sett lög á deilu sjómanna og útvegsmanna. Gerðardómur var settur á sem skar á hnútinn. Skemmst er frá að segja að dómurinn komst m.a. að þeirri niðurstöðu, sem svo var samið um síðar, að ef fækkað væri í áhöfn myndi skiptaprósentan lækka en ekki hækka eins og var. Sjómenn voru óánægðir með þessi býtti. Hækkun skiptaprósentu þegar fækkað var í áhöfn hafði nefnilega fælingaráhrif. Útgerðin gekk ekki á lagið þá eins og nú. Sjómenn töldu að með nýju reglunum um lækkun á prósentunni við fækkun í áhöfn, væri kominn freistnivandi fyrir útgerðina að fækka mannskap fram úr hófi. Það reyndist rétt þegar fram í sótti. Þó bundu sjómenn vonir við að mönnunin leitaði jafnvægis. Sú varð ekki raunin. Í mörgum tilfellum gerði hún það þó. Til dæmis stóru línuskipanna. Fyrst um sinn var þetta ekki vandamál en fljótlega fór að bera á að skipstjórarnir höfðu ekki þau mannaforráð sem áður var. Krafan um fækkun kom úr landi. Í síðasta verkfalli sjómanna var hart tekist á um mönnun sérstaklega á stóru uppsjávarskipunum. Kom jafnvel sú krafa frá útgerðinni að hafa 5-7 kalla um borð!

Ekkert um vinnuna um borð

Til eru lög um mönnun fiskiskipa en þau snúa aðeins að fjölda þeirra sem þarf til að sigla skipi frá A til B, en ekkert um vinnuna um borð við veiðar. Um það er samið í kjarasamningi aðila um fjölda í áhöfn. Hann er því marki brenndur að vera opinn í báða enda. Ef útgerðarmanni hentar svo getur hann sleppt því að hafa háseta haft um borð eða hann getur fjölgað að vild. Til dæmis í kafla um skuttogara er talin upp skiptaprósenta fyrir 16 til 18 menn. Ef fækkar í áhöfn skal skiptaprósenta lækka um 0,9% fyrir hvern sem fækkar um frá sextánda manni. Nú er það svo að lengi vel, eins og vikið er að hér að ofan, þá voru menn ekkert að fikta í mönnun á þessum skipum. Yfirleitt voru 15 kallar á þegar ekki þurfti lengur þrjá vélstjóra um borð. Nú eru sumar útgerðir farnar að manna skuttogara sína með 13 mönnum sem þýðir aukna vinnu og hættulegri. Af hverju hættulegri? Jú vegna þess að nú eru tveir og stundum þrír menn að taka trollið og láta það fara. Þetta er afturför í öryggismálum um mörg ár. Þessi skip veiða hvert og eitt allt að 10.000 tonnum árlega. Það þarf jafn margar hendur og áður til að skvera þennan afla ofan í lest. En hvernig leysa menn þessa fækkun? Með meiri sjálfvirkni? Eða er búið að græða fleiri hendur á mannskapinn? Eitthvað af nýjum tækjabúnaði léttir vinnuna en stöðurnar eru miklu meiri. Staðnar eru frívaktir til að anna öllum þessum afla, þrifnaði og veiðarfæravinnu. Menn eru kúguppgefnir þegar í land er komið og vansvefta. Það er enginn sjómaður að væla yfir einni og einni frívakt þegar vel fiskast en þegar frívaktir nánast allan túrinn eru normið, er eitthvað að.

Frívaktaárátta

Sjómenn hafa lengi staðið í baráttu um að hætta þessari frívaktaáráttu sumra útgerðarmanna. Þá komum við aftur að hættunni við störf sjómanna. Það eru gömul sannindi að illa hvíldur sjómaður er stórhættulegur sjálfum sér og öðrum. Reynslan kennir það. Eins og t.d. þegar skipstjórarnir hættu að hífa sjálfir og stjórna skipi samtímis. Vaktformaður kom og sá um spilin, þá fækkaði slysum á dekki hressilega. Tökum mark á reynslunni og hættum þessari tilraunastarfsemi með heilsu sjómanna. Tekið skal fram að þetta á ekki um við alla skuttogara. Þeir taka þetta til sín sem eiga.

Höfundur er formaður Sjómannasambands Íslands