mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Munu færeysk skip fá sjóræningja til að leggja niður vopn?

29. ágúst 2011 kl. 16:29

Sjóræningjar

Stefnt að því að bjóða sjóræningjum vel launuð störf við fiskveiðar

Nú er unnið að því að því að fá sómalska sjóræningja til gerast fiskimenn á ný. Færeysk verksmiðjuskip gætu gegnt þýðingarmiklu hlutverki í því verkefni, að því er fram kemur í frétt á vef færeyska útvarpsins.

Þar er vitnað í grein í danska blaðinu Politiken þar sem sagt er að aðilar í umboði danska utanríkisráðuneytisins, varnarmálaráðuneytisins, félags útvegsmanna og dönsku flóttamannahjálparinnar hafi kannað möguleikann á því að endurvekja fiskveiðar úti fyrir strönd Afríku þar sem sjórán eru hvað tíðust.

Hugmyndin er að kaupa, eða leigja til langs tíma, togara sem eru til sölu í Færeyjum og í dönskum höfnum. Hægt væri að útvega um 120 manns vinnu um borð hverjum togara. Þess er vænst að sjómennirnir hafi það mikið upp úr sér við fiskveiðar að þeir leggi niður vopnin.

Á það er bent að eftir að sjómennirnir hættu veiðum og sneru sér að sjóránum hafi fiskstofnarnir fengið frið og hafi eflst sem aldrei fyrr. Á þessum slóðum er nóg af skeldýrum eins og rækju og humri. Gangi áætlanir eftir verða færeysku togararnir móðurskip sem taka við afla til vinnslu frá friðsömum sómölskum fiskibátum.