fimmtudagur, 27. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mun meiri afli og 35% hærra þorskverð

Guðjón Guðmundsson
29. maí 2019 kl. 11:23

Mynd/HAG

Strandveiðar fara vel af stað.

Strandveiðar hafa sjaldan farið betur af stað en á þessu ári. Afli á öllum svæðum er meiri en í fyrra og mun fleiri bátar hafa hafið veiðar. Þá hefur fiskverð hækkað mikið sem bætir afkomuna verulega.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir ástæðu fyrir fleiri bátum á veiðum nú en í fyrra ekki síst þá að veiðikerfið sem sett var á í fyrra kom vel út. Nú er heimilt að stunda veiðar í tólf daga í hverjum mánuði sem hefur virkað sem hvati fyrir fleiri að hefja strandveiðar. Auk þess hafa fiskverðshækkanir og lækkun veiðigjalda ekki dregið úr áhuga manna á strandveiðunum nú.

„Það sem af er maí er verðið um 35% hærra en það var í fyrra fyrir handfæraveiddan, óslægðan þorsk. Meðalverðið á mörkuðunum hefur verið 280 krónur núna á móti 207 krónum á sama tíma í fyrra. Auk þess fékkst aukinn afsláttur á veiðigjaldið sem var 20% í fyrra en fór í 40% núna. Þar fyrir utan lækkaði veiðigjaldið einnig lítillega í krónum talið vegna lakari afkomu. Það er því gott hljóð í mönnum og útlit fyrir að þessi strandveiðivertíð komi ágætlega út fyrir marga. Það er líka verðskuldað því ekki hefur afkoman alltaf verið góð,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Bætt í pottinn?

Örn segir að gæftir hafi verið með ágætum en vissulega séu veiðar ekki komnar á fullt á öllum svæðum. Mest hefur veiðst á svæði A. Þorskur sé að litlu leyti genginn á mið strandveiðibátanna fyrir austan svo dæmi sé tekið en vonast er til að það fari að fiskast vel þar einnig í júní.

Nú þegar hafa veiðst yfir 2.000 tonn en potturinn er alls 11.100 tonn af þorski. Örn kveðst frekar eiga von á því að það dugi en þó beri að gæta að því að viðbúið sé að fleiri bátar fari á veiðar og býst við að fjöldi þeirra fari yfir 600 á þessu ári. Í fyrra voru þeir 548. Þess vegna sé allt útlit fyrir að potturinn náist að þessu sinni en það gerðist ekki í fyrra.

„Ég er bjartsýnn á að potturinn klárist og að þá verði bætt aðeins í hann. Það verður mjög líklega brugðist við ef svo vel vill til að menn veiði þessi 11.100 tonn af þorski.“