þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mun minna af makríleggjum en áður

1. júlí 2013 kl. 10:15

Makríleggjarannsóknir um borð í íslensku rannsóknaskipi.

Niðurstöður Norðmanna úr makríleggjaleiðangri liggja nú fyrir.

Norska hafrannsóknastofnunin upplýsir á vef sínum að skip á þeirra vegum hafi fundið langtum minna af makríleggjum en áður í fjölþjóðlegum leiðangri sem staðið hefur yfir í sumar. 

Haft er eftir Svein Iversen leiðangursstjóra að sjávarhiti á hrygningarslóðinni hafi verið 1,5-2,0 gráðum lægri en áður og kunni það að hafa valdið því að eggjaframleiðslan hafi orðið minni. Einnig beri að hafa í huga að markíllinn hafi breytt göngumynstri sínu mikið á undanförnum árum og því sé mögulegt að breytingar hafi orðið á hrygningarsvæðinu. 

Norðmennirnir fóru í leiðangurinn á uppsjávarskipinu Eros og voru á svæðinu vestur af Skotlandi og Írlandi, en þar er hrygningin yfirleitt umfangsmest og þar er eggjaframleiðslan venjulega mest í maí/júní, að sögn Iversen. 

Iversen segir að beðið sé eftir niðurstöðum úr rannsóknunum frá öðrum þátttökuþjóðum og þá skýrist myndin betur. Vinnunefnd á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins fjallar svo um málið um mánaðamótin ágúst/september og niðurstöðurnar munu ásamt fleiri þáttum leggja grunninn að veiðiráðgjöf næsta árs. 

Hrygning makrílsins er skoðuð þriðja hvert ár með söfnun eggja og taka níu þjóðir þátt í því, þeirra á meðal Íslendingar. Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson fór í slíkan leiðangur nú í júnímánuði.