þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Munu standa vörð um hagsmuni sjómanna vegna makríldóms

7. desember 2018 kl. 14:30

Vilhjálmur Birgisson, formaður VA

„Það er alla vega morgunljóst að tryggja þarf að sjómenn fái sinn aflahlut og það fjártjón sem þeir hafa orðið fyrir bætt þegar skaðabætur ríkisins verða greiddar því réttur þeirra vegna þessa fjártjóns er alveg til staðar eins og hjá útgerðamönnum.“

Verkalýðsfélag Akraness hyggst standa vörð um rétt sjómanna vegna dóms Hæstaréttar í máli tveggja útgerðarfyrirtækja vegna makrílkvóta. Eins og komið hefur fram dæmdi Hæstiréttur íslenska ríkið skaðabótaskylt gagnvart útgerðunum Hugin og Ísfélagi Vestmannaeyja.

Vilhjálmur Birgisson, formaður VA, segir í færslu á samfélagsmiðlum að málið hafi þegar verið rætt við lögmann félagsins „til að fylgja þessu eftir þegar málið skýrist enn betur en í sjómannadeild Verkalýðsfélagi Akraness eru fjölmargir sjómenn sem eru á uppsjávarskipum sem stunda makrílveiðar.“

Eins og fram hefur komið kröfðust útgerðarfélögin tvö viðurkenningar á skaðabótaskyldu íslenska ríkisins vegna fjártjóns sem félögin töldu sig hafa orðið fyrir með því að fiskiskipum þeirra hefði á grundvelli reglugerða verið úthlutað minni aflaheimildum á makríl árin 2011 til 2014 en skylt hefði verið samkvæmt lögum.

Hefur Deloitte komist að þeirri niðurstöðu að útgerðarfélögin tvö hafi orðið af 2,3 milljörðum króna. Þegar hagsmunir allra útgerðarfélaga sem líkt er ástatt um eru hafðir í huga er ljóst að kröfur á ríkið gætu losað 12 milljarða vegna þessa tímabils – er þá eftir að taka tillit til áranna 2015 til 2018.

Vilhjálmur skrifar: „Í mínum huga og lögmanns Verkalýðsfélags Akraness eiga íslenskir sjómenn rétt á skaðabótaskyldu vegna fjártjóns sem þeir hafa orðið fyrir með því að fiskiskipum þeirra hefði á grundvelli reglugerða verið úthlutað minni aflaheimildum á makríl árin 2011 til 2014 en skylt hefði verið samkvæmt lögum. [...] Nú er spurningin var aflahlutur sjómanna á skipum Ísfélagsins dregin frá þegar talað er um hagnaðarmissirinn þegar hann var reiknaður út hjá Deloitte.“

„Það er alla vega morgunljóst að tryggja þarf að sjómenn fái sinn aflahlut og það fjártjón sem þeir hafa orðið fyrir bætt þegar skaðabætur ríkisins verða greiddar því réttur þeirra vegna þessa fjártjóns er alveg til staðar eins og hjá útgerðamönnum.“