mánudagur, 13. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Myndar jafnt hnúfubaka sem hryggleysingja

Guðsteinn Bjarnason
6. júní 2020 kl. 08:00

Svanhildur Egilsdóttir, ljósmyndari Hafrannsóknastofnunar, við nýja húsið í Hafnarfirði sem stofnunin er nú flutt í. MYND/Aðsend

Verkefni ljósmyndara Hafrannsóknastofnunar eru af margvíslegum toga. Allt frá því að taka smásjármyndir og myndir af torkennilegum sjávarlífverum yfir í myndatökur á hafi úti af sporðum hnúfubaka. Starfið er fjölbreytt og oft á tíðum líflegt.

Svanhildur Egilsdóttir hefur gegnt þessu starfi frá 2015 og var hún sú fyrsta sem ráðin er sérstaklega til þess að taka ljósmyndir fyrir Hafrannsóknastofnun, en áður hafði hún starfað á stofnuninni frá árinu 1993 sem líffræðingur.

„Ég byrjaði fyrst í rækjurannsóknum hjá Unni Skúladóttur. Svo fór ég vestur í Ólafsvík og var þar í átta ár á útibúi Hafró. Kom svo í bæinn og fór að vinna við botnþörungarannsóknir hjá Karli Gunnarssyni. Í því samstarfi kom það í minn hlut að taka myndir.“

Snarar hendur í fjörunni

Þegar unnið er að þörungarannsóknum í fjörum landsins þarf stundum að hafa hraðar hendur áður en flæða tekur að.

„Við notuðum þá myndavélina til að taka myndir og greindum þörungana í tölvunni þegar heim var komið. Þannig eiginlega byrjaði þetta ljósmyndabrölt. Svo rakst ég á mastersnám í líffræðiljósmyndun í Nottingham í Bretlandi, og sótti um námsleyfi. Jóhann Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóri, sá möguleikana sem fólust í þessu og veitti mér ársleyfi. Síðan eftir að ég kom heim hefur verið nóg að gera.“

Fimm ár eru nú liðin síðan Svanhildur lauk námi og hefur hún síðustu árin verið í fullu starfi sem ljósmyndari stofnunarinnar, en nýtir þó áfram líffræðimenntun sína við ýmsa rannsóknavinnu.

Klóþang og hryggleysingjar

Á Hafrannsóknastofnun eru myndavélar nú orðið mikið notaðar til mælinga hvers konar og tegundagreiningar.

„Ég hef til dæmis verið að mynda vöxt á klóþangi. Þá merkjum við plöntur, tökum mynd af þeim og förum síðan reglulega til að taka myndir aftur. Þá getum við mælt hversu mikið þær hafa vaxið.“

Svanhildur hefur ennfremur tekið ógrynnin öll af myndum af hryggleysingjum, enda oft hægt með myndavélinni að sjá öll smáatriði miklu betur.

„Ég hef þá verið að taka myndir af útliti þeirra og greiningareinkennum. Þær myndir er hægt að senda til annarra landa og láta sérfræðinga staðfesta að þetta sé viðkomandi tegund, og þá skiptir öllu að myndin sé góð og í mikilli upplausn.“

Aukið vægi ljósmyndunar

Stundum er smásjármyndatöku beitt við tegundargreininga.

„Við þörungarannsóknir eru til dæmis greiningareinkennin oft einhver frumugerð eða líffæri, sem sést ekki með berum augum“

Einnig er mikið tekið af neðansjávarmyndum hjá Hafró.

Svanhildur segir vægi ljósmynda alltaf vera að aukast í vísindarannsóknum, krafan um að sýna viðfangsefnini og aðstæður á myndrænan hátt verði sífellt öflugri.

„Nú er algengt að vefsíður séu gerðar fyrir verkefni og þar skiptir útlit miklu máli. Vísindagreinum þurfa oft að fylgja myndir og svo hefur verið þróaður hugbúnaður til að nýta við vinnslu mynda.“

Hún nefnir sem dæmi forrit sem hægt er að nota til að meta magn og forrit sem greina lífverur.

Fimmtíu grindhvalir í fjöru

Loðnuleiðangur fyrir nokkrum árum varð Svanhildi eftirminnilegur en þá þurfti að leita vars vegna veðurs inn í Scoresbysund.

„Ég hef svolítið farið í loðnumælingar, en þarna lentum við í brælu og fórum inn í sundið. Það var alveg magnað og ótrúlega gaman.“

Svanhildur sparaði ekki myndavélina í þeim leiðangri, og má sjá sýnishorn hér á þessum síðum.

„Í fyrrahaust fór ég líka í mjög skemmtilegan leiðangur vestur í Arnarfjörð þar sem verið var að taka sýni úr hnúfubökum. Mitt hlutverk var að taka myndir af sporðblöðku hvalanna. Hver hvalur hefur sérstaka lögun á sporði og ég var að mynda sporðana til að hægt væri að vita hvaða einstaklingar þetta voru sem verið var að taka sýni úr.“

Annar eftirminnilegur leiðangur var með þyrlu á Löngufjörur þar sem margir grindhvalir höfðu strandað.

„Það voru fimmtíu dýr þarna í fjörunni og alveg ótrúlegt að sjá.“

Sjávardýraorðabókin endurnýjuð

Fyrir nokkru hlaut Svanhildur styrk úr Rannsóknarsjóði síldarútvegsins til að myndskreyta Sjávardýraorðabók Gunnars Jónssonar með ljósmyndum. Nýr vefur, Sjávardýravefurinn, verður opnaður á vef Hafrannsóknastofnunar.

„Ég hef verið að safna myndum núna í nokkur ár af sjávarlífverum og svo var ég svo heppin að Jónbjörn Pálsson fiskifræðingur veitti mér aðgang að öllum myndunum sem hann var búinn að safna í gegnum tíðina.“

Svanhildur er búin að setja á vefinn all margar tegundir með myndum og smá fróðleik. Hún segir að til standi að skrifa meira um hverja tegund og bæta við tegundum á komandi misserum. Vefurinn verði því stöðugt í vinnslu.