mánudagur, 18. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Myndavélar um borð í hvert skip

Guðsteinn Bjarnason
31. janúar 2020 kl. 07:00

Fiskiskip við strendur Síle. Strandlengjan er 4.400 kílómetra löng og efnahagslögsagan nær yfir 3,7 milljón ferkílómetra svæði. MYND/EPA

Síle er komið einna lengst allra landa í eftirliti með veiðum.

Á Sjávarútvegsráðstefnunni í nóvember greindi Luis Cocas, aðstoðarráðherra í Síle,  frá því að nú um áramótin yrðu 140 fiskiskip þar í landi komin með fullbúið myndavélareftirlit. Verkefnið hefur verið árum saman í undirbúningi.

Nú í byrjun ársins hófst í Síle viðamikið eftirlit með veiðum þar sem stuðst er við myndavélar um borð. Stefnt er að því að öll fiskiskip landsins verði með slíkan búnað en nú þegar er hann kominn um borð í 140 skip

Luis Cocas, aðstoðarráðherra fiskveiða og fiskeldis í Síle, flutti um þetta erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu í nóvember, á málstofu sem efnt var til þar um rafrænt eftirlit með veiðum. Fiskifréttir hafa áður fjallað um sumt sem fram kom á þeirri málstofu.

Hann sagði reyndar ólguna í Síle undanfarna mánuði, með fjöldamótmælum og óstöðugu stjórnmálaástandi, valda ákveðinni óvissu um framhaldið, en vonar að stjórnvöld haldi ótrauð áfram að styðja þetta metnaðarfulla eftirlitsverkefni.

Gríðarstórt svæði

Cocas sagði það hægara sagt en gert að hafa eftirlit með veiðum í hafinu út af Síle.

Strandlengjan er 4.400 kílómetra löng, allt frá syðsta odda Suður-Ameríku og langleiðina norður með Kyrrahafsströnd álfunnar. Efnahagslögsagan nær yfir 3,7 milljón ferkílómetra svæði og þar veiða menn 3,6 milljónir tonna af sjávarfangi árlega.

Stjórnvöld í Síle hafa engu að síður skipulagt og hrint í framkvæmd víðtæku myndeftirliti, líklega því öflugasta sem fyrirfinnst í sjávarútvegi.

Cocas greindi frá því að í Síle eru gerðir út 140 togarar og 13 þúsund smábátar. Hafnir eru á fimmta hundrað talsins og vinnslustöðvarnar hátt í 900, en í landinu eru um 2000 fiskmarkaðir. Þá eru 3700 eldisstöðvar í Síle.

Hann segir stjórnvöld í Síle hafa lengi verið með í smíðum metnaðarfulla áætlun um rafrænt eftirlit, og hún er nú að komast í fulla framkvæmd eftir margra ára undirbúning og aðlögunartíma.

Kvótakerfi með brottkastsbanni

„Við settum fyrst á brottkastsbann árið 2001 sem virkaði ekki, aðallega vegna þess að eftirlit á hafi vantaði,“ sagði hann

Brottkastsbannið 2001 var sett á um leið og kvótakerfi var komið á í Síle í fyrsta sinn, en fram að því höfðu veiðar verið stundaðar án eftirlits að öðru leyti en því að fylgst var með löndunum.

Á árunum 2010 til 2014 er er engu að síður talið að brottkast hafi numið um níu milljón tonnum árlega. Áhrif veiða á sjófugla, skjaldbökur og sjávarspendýr hafa einnig verið áhyggjuefni, en ekki er vitað um umfang þeirra.

Árið 2012 var brottkastsbannið endurskoðað, refsingar innleiddar og eftirliti komið á. „Í þetta skipti var ekki hugað að brottkasti heldur aðeins meðaflanum og þá voru það bæði sjávarspendýr, sjófuglar og skjaldbökur sem horft var til.“

Þetta var þó gert í áföngum og til að byrja með var engin refsing lögð við brottkasti, jafnvel þótt það hafi verið bannað.

Sektir innheimtar

Á síðasta ári var síðan byrjað að leggja á sektir, sem skipstjóri og útgerð þurfa að greiða og eru þær misháar eftir útgerðarflokkum.

Lágmarkssektin nemur þó 75 þúsund bandarískum dölum, sem er jafnvirði nærri tíu milljóna króna.

Aðspurður sagði hann að stjórnvöld muni til að byrja með sjá um að greina og yfirfara myndefnið, en síðar meir sé reiknað með að þriðji aðili geti tekið við því verkefni, og hafi þá vottun til þess.

„Til að byrja með verður eftirlitið ókeypis en síðar meir verður útgerðin rukkuð,“ sagði hann og tók fram að myndavélar séu aðeins þar í skipinu þar sem verið er að vinna, ekki utan vinnusvæðis áhafnar.