mánudagur, 24. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Myndi aldrei rúma mikið af þorski

Guðsteinn Bjarnason
23. mars 2019 kl. 07:00

Landgrunnið við Ísland er allt að hundrað sinnum stærra en landgrunnið við Jan Mayen. Vistkerfi landgrunnsins við Jan Mayen myndi því aldrei rúma þorsk í neinu magni sem nálgast það sem íslenska landgrunnið ræður við.

Einar Hjörleifsson, sjávarlíffræðingur á Hafrannsóknastofnun, gerði í desember samanburð á stærð landgrunnsins við Jan Mayen annars vegar og við Ísland hins vegar.

Hann segir landgrunnið þar einungis vera á stærð við Digranesgrunn, eins og sjá má á meðfylgjandi korti þar sem Einar hefur „fært“ Jan Mayen nær Íslandi til að auðvelda samanburðinn.

„Þess vegna er afar ólíklegt að við getum búist við miklum viðvarandi veiðum við Jan Mayen, hvorki nú né í fyrirsjáanlegri framtíð,“ segir hann.

Íslenskur þorskur
Síðastliðið haust höfðu borist fregnir af því að norskir sjómenn hefðu veitt mikið magn af þorski við Jan Mayen. Þetta kom á óvart, því ekki er vitað til þess að þorskur hafi áður veiðst þar í neinu umtalsverðu magni.

Norska hafrannsóknastofnunin, Havforskningsinstituttet, tók að sér að kanna uppruna þorsksins sem þar veiddist og komst að þeirri niðurstöðu, seint í janúar síðastliðnum, að hann hafi að meirihluta verið úr Barentshafi en einnig að hluta frá íslensku hafsvæði.

Audun Maråk, framkvæmdastjóri norsku útvegsmannasamtakanna Fiskebåt, sagðist í desember í samtali við Fiskifréttir ekki eiga neina sérstaka von á því að mikill þorskafli myndi veiðast í framtíðinni við Jan Mayen.

„En ef þetta dugar nokkrum bátum þá skiptir það máli,“ sagði hann, og tók fram að ef þorskurinn yrði þarna áfram eftir kannski tvö ár þá myndu Norðmenn óska eftir viðræðum við íslensk stjórnvöld um framhaldið.

„Ef þetta reynist vera íslenskur stofn þá gæti það bent til þess að íslenski stofninn sé að vaxa til muna og fara yfir mun stærra svæði.“