fimmtudagur, 20. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ná athygli með nektinni

5. desember 2013 kl. 10:00

Ein myndanna sem upp kemur þegar Fishlove er gúglað á netinu.

Fræga fólkið situr nakið fyrir á myndum í áróðursherferð fyrir bættri umgengni um auðlindir sjávar.

Það er gömul saga og ný að birting mynda af berstrípuðu fólki og þá sérstaklega frægu fólki er óbrigðult ráð til þess að ná athygli lesenda og áhorfenda ef koma þarf einhverjum boðskap til skila. 

Samtökin Fishlove hafa farið þessa leið í herferð sinni fyrir bættri umgengni um auðlindir sjávar undir slagorðinu: „Hjálpið til við að bjarga lífinu á djúpsævi, hjálpið áður en það verður um seinan.“ 

Og viti menn: Myndirnar og málstaðurinn hafa umsvifalaust ratað á forsíður dagblaða og tímarita um allan heim, eins og til var ætlast. 

Áskorun samtakanna er beint að þingmönnum Evrópuþingsins og þeir hvattir til að beita sér gegn eyðingu djúpsjávartegunda og lífríkis þeirra í Norðaustur-Atlantshafi, sérstaklega af völdum togveiða. 

Á myndunum virðist hins vegar lítill greinarmunur vera gerður á fisktegundum, eins og sjá má í meðfylgjandi myndasafni sem fæst með því að gúgla Fishlove á netinu. 

Og sennilega verður þessi frétt fljótlega mest lesna fréttin hér á Fiskifréttavefnum !