mánudagur, 24. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nærri helmingur makríls nú í norskri lögsögu

Guðsteinn Bjarnason
21. september 2018 kl. 14:00

Makrílveiðar um borð í íslensku fiskiskipi. MYND/Grétar Ómarsson

Engan bilbug er að finna á íslenskum stjórnvöldum þrátt fyrir niðurstöður úr makrílleiðangri sumarsins. Næsti samningafundur verður í október.

Þegar niðurstöður makrílleiðangurs sumarsins lágu fyrir, en þær voru birtar í lok ágúst, vöknuðu strax áhyggjur um að samningsstaða Íslendinga í makrílviðræðum við nágrannaríki okkar gætu versnað.

Vísitala lífmassa makríls hafði lækkað um 40 prósent milli ára, úr 10 milljónum tonna árið 2017 niður í 6,2 milljónir. Vísitala lífmassans mældist auk þess 30 prósent lægri í sumar en meðaltal síðustu fimm ára.

Ennfremur reyndist þéttleiki makrílsins mestur í Noregshafi en mun minna mældist á Íslandssvæðinu en verið hefur undanfarin ár.

„Fréttir um að forsendurnar séu að breytast eru óheppilegar fyrir Ísland,“ sagði Daði Már Kristófersson, prófessor við Háskóla Íslands, í viðtali við RÚV 3. september síðastliðinn. „Við höfum sett einhliða kvóta á makríl og byggt okkar röksemdafærslu á því að mikið sé um makríl á Íslandsmiðum.“

Í vinnuplaggi frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES), sem Fiskifréttir hafa undir höndum, er að finna nánari sundurliðun makrílsins eftir lögsögum ríkjanna. Þar kemur fram að 18,1 prósent lífmassa makrílsins var að finna í íslenskri lögsögu. Þetta er mikil breyting frá síðasta ári þegar 37 prósent lífmassans var í okkar lögsögu.

Á móti hefur hlutfall vísitölu lífmassans innan norsku lögsögunnar aukist mjög, eða úr 21 prósenti á síðasta ári í 47,6 prósent á þessu ári.

„Við hrökkvum ekkert upp við þessa breytingu á milli ára,“ segir Sigurgeir Þorgeirsson, ráðgjafi í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. „Það hefur verið sérstakt veðurfar í sumar, kaldara hér suður og vestur af landinu heldur en síðustu ár. Það kann að hafa valdið einhverju um þessar breytingar á göngumynstri.“

Hann segir enga ástæðu til að ætla annað en að þetta geti breyst aftur á næsta ári. Jafnframt bendir hann á að töluverðar breytingar hafi verið frá ári til árs á því hvernig dreifingin hefur verið milli lögsagna.

Þanni hefur hlutfall makríls innan íslensku lögsögunnar verið yfir 30 prósent síðustu þrjú ár en var rúm 17 prósent árin 2013 og 2014, sem er svipað og nú. Innan norsku lögsögunnar er hlutfallið nú hins vegar mun hærra en verið hefur. Árið 2013 náði það 38,5 prósentum en hefur síðan mælst á bilinu 18 til 27,5 prósent, þangað til nú í ár að það rauk upp í nærri 48 prósent.

Bakslagið breytir engu
„Það eru búnar að vera massívar makrílgöngur inn í okkar lögsögu núna í allmörg ár. Samningsstaða okkar hefur verið að styrkjast og ég tel ekki að þetta bakslag núna ef svo má kalla breyti nokkru um þá stöðu,“ segir Sigurgeir, sem er aðalsamningamaður Íslands í makrílviðræðunum.

Þrátt fyrir að engan bilbug sé að finna á íslenskum stjórnvöldum má ætla að Norðmenn muni óspart nýta sér þessa breyttu stöðu þegar fulltrúar ríkjanna hittast næst til að ræða skiptingu deilistofnanna. Samningslaust hefur verið um makrílveiðar frá upphafi og engir samningar hafa heldur náðst undanfarið um norsk-íslensku síldina og kolmunnann. Íslendingar hafa ítrekað kvartað undan óbilgirni Norðmanna í þessum viðræðum.

Næsti samningafundur verður í október og Sigurgeir segist engu vilja spá um niðustöðu þeirra fundarhalda.

„En það sem virðist blasa við núna eftir þennan leiðangur í sumar er að það sé samdráttur mismikill í makríl, norsk-íslenskri sild og kolmunna,“ segir hann. „Þegar menn fara að átta sig á þvi, ef þetta verður túlkað sem alvarleg ábending um að stofnarnir seu byrjaðir að minnka, þá ætti það að reka á eftir mönnum að vilja ná samkomulagi, þó á hinn bóginn sé auðvitað erfiðara og sárara að lækka sínar prósentur samtímis því að heildaraflinn sé að dragast saman. Þannig að það vinnur nú svolítið hvað gegn öðru, en það er auðvitað algert ábyrgðarleysi að halda áfram á þeim nótum sem menn hafa gert undanfarin ár.“