þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nærri níutíu prósent veiðanna með MSC-vottun

Gudsteinn Bjarnason
4. febrúar 2018 kl. 11:46

Gísli Gíslason

Gísli Gíslason, framkvæmdastjóri MSC hér á landi, segir MSC geta verið öflugan bandamaðan greinarinnar gagnvart gagnrýni

Það sem af er árinu hafa bæði skötuselsveiðar og kolmunnaveiðar hér við land fengið MSC-vottun. Þar með eru 89 prósent allra fiskveiða hér við land komnar með slíka vottun.

„Þetta hlutfall er eitt af því hæsta sem þekkist í heiminum,“ segir Gísli Gíslason, framkvæmdastjóri Marine Stewardship Council hér á landi. 

Stöku smáþjóðir, sem veiða kannski eina eða tvær tegundir af fiski, eru með hærra hlutfall vottaðra veiða, jafnvel hundrað prósent.

„En af stóru fiskveiðiþjóðunum erum við með allra hæsta hlutfallið. Og Íslendingar hafa í raun tekið forystu núna þegar skötuselurinn er vottaður, því það er þá áttunda tegundin sem við erum fyrst til að fá vottun á.“

Fundur í Reykjavík
Í síðustu viku efndi Marine Stewardship Council til tveggja daga vinnufundar í Reykjavík um vottunarstarfið, þar sem farið var yfir ferlið að baki vottuninni og kynntar nýjustu breytingar á staðlinum.

Fundinn sóttu meðal annars íslenskir, færeyskir og grænlenskir fulltrúar, bæði frá greininni sjálfri, frá hafrannsóknarstofnunum landanna þriggja og sjávarútvegsráðuneytum þeirra allra auk sérfræðinga frá MSC. Urðu þar líflegar samræður þar sem ólíkum sjónarmiðum var komið á framfæri.

„Þetta var mjög gagnlegur fundur,“ segir Gísli. „Mér heyrist að almenn ánægja hafi verið með hann.“

Kröfur hertar
Kynntar voru bæði þær breytingar sem urðu á staðlinum við síðustu endurskoðun, árið 2015, og fyrirhuguð endurskoðun sem verður eftir tvö ár.

„Við uppfærum staðlana á fimm ára fresti í samræmi við FAO-leiðbeiningarnar,“ en vottun ábyrgra fiskveiða er byggð á leiðbeiningum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Nýjasta endurskoðunin á MSC-staðlinum er frá 2015, Fisheries Certification Requirements 2.0, og vottaðar fiskveiðar um heim allan hafa smám saman verið að laga sig að honum.

„Það voru gerðar ákveðnar breytingar sem varða einkum umhverfisáhrif veiðanna og fela í sér hertar kröfur. Það er til dæmis komin skilgreining á því hvað teljist vera viðkvæm vistkerfi og nú er lika gerð ríkari krafa til fiskveiða um að þær valdi ekki neikvæðum áhrifum til lengri tíma. Það eru svokölluð uppsöfnuð langtímaáhrif, því þegar veiðarnar eru skoðaðar á ársgrundvelli getur litið út fyrir að allt sé í lagi en til lengri tíma litið geta uppsöfnuð áhrif verið neikvæð.“

Flestar veiðar þurfa úrbætur
„Þarna er líka ný krafa um að regluleg vinna sé í gangi við að minnka meðafla og svo er komið svokallað Risk Based Framework, þar sem vottun er veitt með skilyrðum um að úrbætur séu gerðar fyrir næstu endurskoðun sem er þá eftir fimm ár.“

Gísli segir að samkvæmt nýja staðlinum þurfi að gera einhverjar endurbætur á 94 prósentum allra þeirra veiða í heiminum sem fengið hafa MSC-vottun.

„Samkvæmt gamla staðlinum, sem var númer 1,3, voru til dæmis þorskveiðarnar okkar strax vottaðar án skilyrða og ýsan lokaði sínum skilyrðum eftir tvö eða þrjú ár, þannig að við enda fyrsta vottunartímans voru bæði þorsk- og ýsuveiðar hérna orðnar skilyrðislausar. En svo þegar endurvottað var þá komu fjögur til fimm ný skilyrði sem sneru þá aðallega að umhverfisáhrifum veiðanna á botndýraríkið.“

Hann segir þó þessar hertu kröfur ekki þess eðlis að erfitt eigi að vera að uppfylla þær.

„Almennt skora íslenskar veiðar mjög vel i kerfinu. Þetta er miðað við bestu mögulegu framkvæmd veiðanna og við erum mjög ofarlega í þeim tólf prósentum heimsveiðanna sem búnar eru að fá vottun. Þær veiðar geta talist meðal þeirra bestu sem stundaðar eru.“

Hann segir að MSC-vottanir hafi þannig í reynd staðfest það sem flestir telji sig vita fyrir, nefnilega að kerfið hjá okkur sé almennt mjög gott.

„Við getum verið virkilega ánægð með það.“

Bandamaður greinarinnar
Þegar MSC fór af stað með vottun ábyrgra fiskveiða gætti mikillar tortryggni, ekki síst af hálfu hagsmunaaðila í greininni. Gísli segir að þar á hafi orðið mikil breyting.

„Menn voru eitthvað hræddir til að byrja með, kannski vegna þess að umhverfissamtök tóku þátt í þessu. En hugmyndafræðin að baki MSC hefur alltaf verið sú að bæði umhverfissamtök, vísindamenn og iðnaðurinn sjálfur komi að stjórninni, því þannig færðu jafnvægi í þetta. Hugsunin var sú að ef iðnaðurinn einn stæði að þessu, þá yrðu umhverfissamtökin tortrygging, en ef umhverfissamtök stæðu að þessu þá yrði iðnaðurinn tortrygginn. Og ef stjórnvöld sæju um þetta þá yrði kannski bæði iðnaðurinn og umhverfissamtökin tortryggin.“

Hann segir þetta samstarf ólíkra hagsmuna hafa verið lykilinn að því að MSC hefur náð æ sterkari stöðu.

„Lykillinn hefur líka verið sá að MSC reynir að hlusta á alla efnislega og góða gagnrýni og byggja á henni til að betrumbæta sig. Þess vegna nýtur MSC vaxandi trausts.“

Menn hafi líka áttað sig á því smám saman að þótt umhverfissamtök hafi frá upphafi verið tengd við MSC, þá er MSC í sjálfu sér staðlasamtök.

„Það hefur líka verið þannig að þegar veiðarnar hafa fengið vottun okkar kerfi þá styðjum við þær gegn gagnrýni sem stundum kemur fram af hálfu umhverfissamtaka. Við verjum þá veiðarnar með öllum efnislegum rökum þannig að geirinn, sem hefur tekið okkur af tortryggin, hefur þá fundið í okkur öflugan bandamann.“