þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nánast enginn kolmunnakvóti og mikil skerðing í síld

1. október 2010 kl. 11:52

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) leggur til að kolmunnakvótinn í NA-Atlantshafi á næsta ári verði skorinn niður um 90% og kvóti norsk-íslenskrar síldar um þriðjung.

Ráðlagður kolmunnakvóti á yfirstandandi ári er 540.000 tonn en ICES leggur til að aðeins verði leyft að veiða 50.700 tonn á því næsta.

Veiðiráðgjöf ICES og útgefinn kvóti fyrir norsk-íslenska síld fyrir þetta ár var 1.483.000 tonn en tillaga ráðsins fyrir næsta ár er 988.000 tonn.

Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur áhyggjur af makrílstofninum vegna veiða langt umfram kvóta. Makrílkvótinn fyrir þetta ár var ákveðinn 572.000 tonn en útlit er fyrir að aflinn endi í 930.000 tonnum. Þrátt fyrir þessa framúrkeyrslu leggur ICES til að leyft verði að veiða 672.000 tonn af makríl á næsta ári.

Veiðiráðgjöf ICES er ekki ákvörðun um kvóta. Ríkin sem hlut eiga að máli munu nú setjast niður og ákveða kvótann og skiptingu hans í einstökum tegundum. Það er að skilja á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar að hún muni leggja til svipaðan kvóta í kolmunna og norsk-íslenskri síld og ICES ráðleggur. Um makrílinn er hins vegar meiri óvissa eins og alþekkt er.

Sjá nánar á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar, HÉR