sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Náum vonandi að fylla í dag

30. apríl 2012 kl. 11:18

Faxi RE. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

Faxi RE í síðasta kolmunnatúrnum við Færeyjar

Faxi RE er nú í síðustu hreinu kolmunnaveiðiferð ársins og er skipið statt í færeyskri lögsögu um 70 mílur suður af Suðey. Aflinn í morgun var kominn í rúmlega 1.200 tonn og sagðist Ebenezer Guðmundsson, sem er 1. stýrimaður í túrnum, vonast til að skipverjar næðu að fylla í dag. Burðargeta Faxa er að hámarki um 1.550 tonn þannig að góðar líkur eru því á að stefnan verði tekin á Vopnafjörð síðar í dag.

Að sögn Ebenezers hefur veiðisvæðið færst norðar síðustu dagana.

,,Í síðustu veiðiferð vorum við að veiðum syðst í færeysku lögsögunni, fyrir sunnan svokallað skiljusvæði, en nú er veiðin þar dottin niður og kolmunninn er kominn norður á umrætt svæði. Þar verðum við að nota seiða- og smáfiskaskilju og aflinn er minni fyrir vikið,“ segir Ebenezer í samtali á heimasíðu HB Granda,  en er rætt var við hann í morgun var verið að taka sjötta hol veiðiferðarinnar. Sagðist hann vonast til að hægt yrði að fylla í dag þannig að hægt yrði að leggja af stað áleiðis til Vopnafjarðar síðar í dag eða í kvöld. Gangi það eftir ætti skipið að geta verið komið til hafnar á Vopnafirði nk. miðvikudag en þangað er um 35-38 tíma sigling frá veiðisvæðinu.
Nokkur fjöldi skipa er á kolmunnaveiðum suður af Færeyjum. Mest er um rússnesk skip en þar eru einnig færeysk skip og nokkur íslensk skip og þá aðallega skip þar sem aflinn er unninn um borð.