laugardagur, 18. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nesfiskur lætur smíða nýjan frystitogara

8. september 2019 kl. 09:00

Tölvuteiknaður Baldvin Njálsson GK.

Skipasýn hannar nýjan Baldvin Njálsson GK.

Nesfiskur í Garði hefur gert samning við skipasmíðastöðina Armon í Vigo á Spáni um smíði á rúmlega 66 metra löngum frystitogara og ráðgert er að smíðinni ljúki haustið 2021.

Það var fréttasíðan aflafrettir.is sem sagði fyrst frá þessum áformum.

Bergur Þór Eggertsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Nesfisks, segir að nýi togarinn muni leysa Baldvin Njálsson GK 400 af hólmi sem er að komast til ára sinna.

Skipið, sem verður gefið nafnið Baldvin Njálsson, er 66,3 metrar á lengd og 15 metrar á breidd. Bergur segir þetta mikla fjárfestingu sem Nesfiskur leggur út í en gefur þó ekki upp upphæðir í því sambandi. Á lokametrum hönnunarinnar bættist við einn metri í lengd skipsins sem verður með búnað til að frysta flök.

„Með nýsmíðinni fáum við nýtt skip í stað Baldvins Njálssonar. Við fengum hann afhentan 1991 frá þessari sömu skipasmíðastöð og hann stendur því á þrítugu þegar við fáum nýja skipið afhent,“ segir Bergur Þór.

Flakafrysting

Fryst verða flök um borð. Bergur Þór segir að fyrst um sinn verði ekki mjölvinnsla um borð hvað sem síðar verður. Hausar verða frystir og teknir í land þar sem gerð verða verðmæti úr þeim líkt og gert er í núverandi Baldvin Njálssyni.

Skipið er hannað af Skipasýn. Sævar Birgisson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að meginmunurinn á skipunum tveimur sé vöruhótel í tveimur lestum þar sem flokkaður fiskur fer frystur á bretti. Á millidekkinu verður flökunarvél og sjálfvirkur frystibúnaður sem er einkar mannaflssparandi tæknibúnaður. Lestin er á tveimur hæðum og samtals er rúmmál hennar 1.600 rúmmetrar.

Í hópi sparneytnustu skipa

Ekki hefur verið ákveðið hvaðan vél í skipið kemur en hún verður væntanlega nálægt 4.000 kW. Djúprista skipsins verður um 7 metrar og það verður með skrúfu sem er 5 metrar í ummál. Snúningshraði hennar er lágur og skipið fyrir vikið sérlega sparneytið. Sævar segir að nýr Baldvin Njálsson verði í hópi sparneytnustu skipa í þessum flokki. Hann segir að það sé djúpristan sem geti takmarkað stærð skrúfunnar. Þá er fríborðið hærra en gengur og gerist á skipum af þessu tagi.

Vöruhótel

Sævar segir að stóra stökkið í nýju skipi sé brettavæðingin. Skipulagið kallast vöruhótel og felst í þjarka sem tegundar- og stærðarflokkar og beinir afurðum að sjálfvirkum pökkunarbúnaði. Brettastaflari staflar pökkuðum afurðum á brettin Við löndun eru þau tilbúin og tegundarflokkuð til útflutnings. Þetta dregur úr öllu umstangi við löndun þar sem tegundaflokkun fer fram á bryggjunni. Fyrirkomulagið dregur því verulega úr kostnaði við landanir.

Það verða í raun tvær brettavæddar lestar í skipinu því milligólf er eftir lestinni endilangri.  Þetta gefur færi á eins eða tveggja bretta hæð í hvorri lest í stað allt að fjögurra bretta hæð í einni lest. Þetta er ákjósanlegt upp á stöflun í vondum veðrum og gagnvart notkun lyftara í lestunum.

Nesfiskur gerir nú út einn frystitogara, tvo ísfisktogara, þrjá snurvoðarbáta og tvo línubáta. Fyrirtækið er með frystingu, ferskfiskvinnslu, saltfiskverkun, skreiða og hausaþurrkun í Garði og frystingu og ferskfiskvinnslu í Sandgerði.