miðvikudagur, 11. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Neytendasamtökin mótmæla tvenns konar fiskverði

15. nóvember 2013 kl. 15:31

Fiskborð í fiskbúð.

Segja það kosta neytendur mikla fjármuni á hverju ári.

Stjórn Neytendasamtakanna skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því að tvöföld verðmyndun í sjávarútvegi verði afnumin og tryggt verði að virk verðsamkeppni ríki á fiskmörkuðum neytendum til hagsbóta.

Í ályktun samtakanna segir m.a.: 

„Lítið og ótraust framboð á fiski inn á íslenska fiskmarkaði leiðir til þess að verð á mörkuðum er of hátt. Þegar borið er saman skiptaverð verðlagsstofu, sem notað er í beinum viðskiptum með fisk þar sem útgerð og fiskvinnsla er á sömu hendi kemur í ljós mikill munur á skiptaverði verðlagsstofu og þess verðs sem myndast á fiskmörkuðum. Munar þar gjarnan tugum prósenta sem markaðsverðið er hærra.

Þorri þess fisks sem seldur er til neytenda í fiskbúðum og öðrum matvöruverslunum er keyptur í gegnum fiskmarkaði á markaðsverði. Þannig leiðir lítið framboð á mörkuðum og hátt markaðsverð til hærra vöruverðs til íslenskra neytenda. Það er því brýnt hagsmunamál neytenda að samkeppni í sjávarútvegi sé virk og leiði til eðlilegrar verðmyndunar á markaði.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar voru ríflega 7300 tonn af sjávarfangi seld til neyslu innanlands árið 2012. Ekki er óvarlegt að reikna með að smásöluverð nemi að lágmarki 10 milljörðum króna á ári. Þegar horft er til þess að tvöföld verðlagning í sjávarútvegi og lítið framboð á mörkuðum leiðir til að munur á skiptaverði verðlagsstofu og markaðsverði eru tugir prósenta, er ljóst að þetta kostar íslenska neytendur 1 til 2 milljarða á ári,“ segir í ályktun Neytendasamtakanna. 

Sjá nánar á vef Neytendasamtakanna.