mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Neytendur sjávarafurða blekktir

4. apríl 2011 kl. 17:37

Ekki er alltaf þorskur í merktum þorskafurðum

Enginn þorskur var í fimmtungi þorskréttanna, samkvæmt írskri könnun.

Umfangsmiklar blekkingar í sölu á fiski í verslunum og veitingahúsum eru stundaðar bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Þetta felst í því að telja kaupandanum trú um að hann sé að kaupa dýra fisktegund eins og til dæmis þorsk þegar hann er í raun að fá ódýrari tegund.

Matvælastofnun Írlands gerði nýlega könnun á þessu þar í landi og skoðaði 111 vörur sem merktar voru eða seldar sem þorskafurðir. Næstum ein af hverjum fimm þessara vara eða 19% reyndust innihalda annan fisk en þorsk. Í flestum tilfellum var um ufsa að ræða. Í framhaldi af þessum niðurstöðum varaði stofnunin fisksöluaðila í landinu við og tilkynnti að kannanir af þessu tagi yrðu gerðar reglulega á hverju ári.

Írska könnunin fór þannig fram að tekin voru sýni í almennum verslunum, fiskbúðum, á hótelum, krám, veitingahúsum og skyndibitastöðum. Sýnin voru síðan rannsökuð erfðafræðilega. Í ljós kom að ástandið var verst á stöðum sem selja máltíðir sem fólk tekur með sér heim.  Frá þessu er skýrt á vefnum SeafoodSource.com.

Blekkingar af þessu tagi eru algengar í Bandaríkjunum ekkert síður en í Evrópu. Þannig voru 186 veitingastaðir í Flórída kærðir á síðasta ári vegna rangra upplýsinga. Í sumum tilfellum var fisktegundin escolar (slöngumakríll) notaður í stað túnfisks í sushi- eða sashimirétti en algengast var að eftirlíking af krabbakjöti, venjulega úr ufsa, var sögð vera alvöru krabbakjöt. Einnig var eldisfiskurinn tilapia stundum sagður vera dýrari fisktegund.