mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Niceland Seafood í 65 verslunum í Colorado

Guðjón Guðmundsson
8. desember 2018 kl. 07:00

Niceland Seafood teymið, f.v.: _Frosti Gnarr, Þorsteinn Gestsson, Oliver Luckett, Július Fjeldsted og Heiða Kristín Helgadóttir. MYND/SISSA ÓLAFSDÓTTIR

Markaðssókn í Bandaríkjunum á nýju ári

Fyrirtækið Niceland Seafood hefur ráðið til sín fjóra reynslumikla sérfræðinga í sölu- og markaðssetningu á sjávarfangi í Bandaríkjunum. Íslenskur fiskur verður markaðssettur undir vörumerkinu Niceland Seafood, en nú þegar hefur fyrirtækið náð þeim árangri að hefja sölu í 65 verslunum í Colorado. Árangurinn hefur vakið athygli en ætlunin er að stórauka markaðssóknina á nýju ári.

„Frá því í ágúst höfum við farið inn með teymi af íslenskum sölufulltrúum í nokkrar nýjar verslanir í hverri viku og kynnt vörumerkið Niceland og vöruframboðið,“ segir Heiða Kristín Helgadóttir, sem er stofnandi móðurfyrirtækisins EFNI ásamt bandaríska frumkvöðlinum Oliver Luckett sem hefur verið búsettur á Íslandi um nokkurra ára skeið.

Niceland Seafood selur fisk sem valkost fyrir vandláta. Kaupendur sem eru tilbúnir til þess að borga aukalega fyrir máltíð sem passar við þeirra lífsstíl og hugmyndafræði. Viðskiptavinir Niceland eru upplýstir með tæknilausn um hvaðan fiskurinn kemur, hvenær hann var veiddur og hvernig hann kemst til neytandans. Þá fá þeir fullvissu um að varan sem þeir kaupa sé framleidd með sjálfbærum hætti og standist ströngustu kröfur i þeim efnum. Eitt af því sem hefur verið mikið til umræðu í Bandaríkjunum og víðar er matarsvindl. Tæknilausn Niceland, TraceabiliT,  býður upp á rekjanleika vörunnar þannig að neytendur geta verið fullvisssir um hvað þeir eru að kaupa. Það er mikils virði við markaðssetningu í Bandaríkunum.

Vörumerki kringum íslenskar sjávarafurðir

Fiskurinn er merktur með svokölluðum QR kóðum. Með því að beina myndavél að QR-kóða og opna slóð sem birtist á skjánum geta neytendur kynnt sér sögu vörunnar allt frá veiðum til vinnslu, flutnings og dreifingar. Upplýsingamiðlunin byggir á opinberum gögnum um sjávarútveg á Íslandi, til dæmis frá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Samgöngstofu, google maps og flugfélögum.

„Við erum að búa til vörumerki í kringum íslenskar sjávarafurðir. Þótt okkur kunni að þykja eðlilegt að allir viti af gæðum og hreinleika íslenskra sjávarafurða þá er staðan bara ekki sú í raunveruleikanum. Uppruna þess fisks sem hefur verið seldur frá Íslandi til Bandaríkjanna áratugum saman hefur ekki verið sérstaklega haldið á lofti. Við ætlum að segja söguna af okkar fiskveiðum og hvernig við höldum okkar fiskistofnum sjálfbærum. Við nýtum okkur tæknina og nútíma markaðsetningu til þess að segja þessa sögu til dæmis með QR-kóða á umbúðum sem viðskiptavinir geta skannað með snjallsímunum sínum og fengið upplýsingar um fiskinn og umhverfið og rekjanleika vörunnar. Þar er sagan sögð af því hvernig fiskurinn er veiddur og endar á diski neytandans,“ sagði Heiða Kristín í samtali við Fiskifréttir í júní síðastliðnum.

„Þegar fram líða stundir erum við áhugasöm um að selja fisk í neytendapakkningum milliliðalaust með netverslun. Við höfum byggt upp kerfi sem eykur sjálfvirkni í afgreiðsluferlinu, gerir kaupendum kleift að panta í gegnum vefverslun og fylgjast með vörunum alla leið til afhendingar. Það sem hamlar sölu- og dreifingarferlinu er að það hefur farið fram með samskiptaleiðum, eins og símtölum og faxsendingum sem er kannski ekki alveg samskiptamáti 21. aldarinnar,“ segir Heiða.