laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nígería jafnast á við Bandaríkin

17. febrúar 2011 kl. 12:00

Á skreiðarmarkaði í Aba í Nígeríu. (Mynd: Sigurjón Arason)

Hvort markaðssvæði kaupir íslenskar sjávarafurðir fyrir 10-11 milljarða á ári

Nígeríumarkaður hefur löngum verið mikilvægur fyrir íslenskar sjávarafurðir en sala þangað tók stökk milli áranna 2008 og 2009. Nú er svo komið að Nígeríumarkaður jafnast á við Bandaríkjamarkað í sölu sjávarafurða.

Evrópa er sem fyrr langstærsta markaðssvæðið en þangað fóru um 80% af útfluttum sjávarafurðum árið 2009. Önnur markaðssvæði, svo sem í Asíu, Afríku og í Bandaríkjunum, eru með mun minni hlutdeild eða frá 4% og upp í tæp 7%.  

Bandaríkin voru í eina tíð aðalmarkaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir en er nú ekki nema svipur hjá sjón. Á árinu 2009 urðu þau tíðindi að Nígería skaust yfir Bandaríkin. Íslendingar fluttu út sjávarafurðir fyrir rúma 10 milljarða til Nígeríu það ár en fyrir tæpa 9 milljarða til Bandaríkjanna. Reyndar sigu Bandaríkjamenn svo aftur framúr Nígeríu á árinu 2010. Þá keyptu þeir sjávarafurðir frá Íslandi fyrir rúma 11 milljarða en útfluttar sjávarafurðir til Nígeríu á síðasta ári voru 10,4 milljarðar króna.