mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Níu milljón tonn í hafið árlega

Guðsteinn Bjarnason
9. febrúar 2019 kl. 07:00

Sumir fiskar fara beint aftur út í hafið. MYND/EPA

FAO hefur í þriðja sinn gefið út skýrslu um brottkast í fiskveiðum á heimsvísu og telur mögulegt að dregið hafi úr brottkasti á síðustu áratugum.

Á árunum 2010 til 2014 telst Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) svo til að árlega hafi 9,1 milljónum tonna sjávarfangs verið kastað aftur í hafið, eftir að hafa veiðst. Þetta er um tíundi hluti heimsaflans ár hvert.

Þá fullyrðir stofnunin að 46 prósent brottkastsins á heimsvísu, eða um 4,2 milljónir tonna, komi úr veiðum með botnvörpum, þar á meðal rækjuvörpum, bjálkavörpum og öðrum botnvörputegundum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá FAO um brottkast á heimsvísu, og er það í þriðja sinn sem stofnunin reynir að leggja mat á umfang brottkasts. Síðast var það gert árið 2005 og hljóðaði matið þá upp á 7,3 milljón tonn árlega.

Þar áður hafði FAO gefið út mat á brottkasti árið 1995 og var þá slegið á að brottkastið væri einhvers staðar á bilinu 17,9 til 39,5 milljón tonn árlega, en það var í fyrsta sinn sem slíkt mat var gefið út og þá með öðrum aðferðum en síðar var beitt.

Matið núna er byggt annars vegar á þeim opinberu tölum sem til eru um brottkast síðustu tvo áratugina, og hins vegar á löndunargögnum FAO sem ná til tvö þúsund mismunandi fiskveiða um heim allan á árunum 2010 til 2014.

Mest er brottkastið í norðvesturhluta Kyrrahafsins og í Norðaustur-Atlantshafi. Samtals er brottkastið á þessum tveimur svæðum talið vera um 3,57 milljónir tonna, sem samsvarar um það bil 39 prósentum af öllu brottkasti.

Hefur skánað
Í Norðaustur-Atlantshafi er brottkastið talið vera um 1,5 milljónir tonna, en óvissumörkin ná þó allt niður í 758 milljónir og upp í 2,3 milljónir tonna.

Í skýrslunni segir að mat FAO sé býsna nálægt því mati sem Dirk Zeller og félagar greina frá í tímaritinu Fish and Fisheries árið 2017, en þau notuðu gögn úr verkefnin Sea Around Us. Sú greining benti til þess að árið 1989 hafi brottkast náð hámarki í um það bil 18,8 milljónum tonna, en síðan hafi umfangið minnkað og verið komið niður fyrir 10 milljónir árið 2014.

Munurinn er sagður geta skýrst af því að aðferðir og gagnavinnsla hafi batnað, en einnig sé mögulegt að betri veiðarfæri og betri aflanýting hafi orðið til þess að brottkastið hafi í reynd minnkað.

„Erfitt er að leggja tölulegt mat á þær framfarir sem orðið hafa hvað varðar brottkast,“ segir í skýrslunni, „en þessi skýrsla bendir til þess að á síðustu tíu árum hafi betra eftirlit fengist með slíkum málum með því að birta opinberlega tölur um brottkast.“

Ein milljón sjófugla
Í skýrslunni er einnig að finna tölur um meðafla og brottkast dýrategunda sem njóta verndar, eru í hættu eða jafnvel útrýmingarhættu. Þar segir að ein milljón sjófugla, 8,5 milljónir af skjaldbökum, 225 þúsund sæsnákar, 650 þúsund sjávarspendýr og tíu milljónir hákarla hafi veiðst og verið kastað aftur í hafið árlega undanfarið.

Tekið er fram að torvelt sé að meta umfangið miðað við þau takmörkuðu gögn sem til eru. Þar að auki verði vart séð fram á að auðvelt verði að finna leiðir til að fá nákvæmara mat.