laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nóg af gullkarfa og þorski

12. maí 2016 kl. 08:00

Sturlaugur H. Böðvarsson. (Mynd af vef HB Granda)

Gengur ekki nógu vel að finna ufsann

,Það fer drjúgur tími af hverri veiðiferð í að leita að ufsa í veiðanlegu magni. Það hefur ekki gengið nógu vel að finna hann en það er vandalaust að ná skammtinum á gullkarfa- og þorskveiðum,“ sagði Magnús Kristjánsson, skipstjóri á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK, er rætt var við hann á heimasíðu HB Granda..

Magnús var þá staddur með togarann að veiðum á Boðagrunni en þar hefur verið leitað að ufsa frá því að veiðiferðin hófst sl. mánudag.

,,Ásbjörn RE fékk hér ágætis ufsaafla í stærsta straumi um daginn en síðan hefur minna orðið vart við ufsa. Við leitum þó áfram og svo er auðvelt að bjarga túrnum með gullkarfa og þorski. Ýsuna forðumst við eins og heitan eldinn og gulllaxinn heldur sig dýpra,“ sagði Magnús Kristjánsson.

Lítið er af skipum þar sem Sturlaugur H. Böðvarsson er nú að veiðum en fjöldi skipa er á úthafskarfamiðunum úti á Reykjaneshryggnum. Samkvæmt áætlun á togarinn að vera í höfn í Reykjavík nk. föstudag.