miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nóg af ýsu í Breiðafirði

14. janúar 2011 kl. 14:42

Brynja SH. (Mynd: Alfons Finnsson)

Ágæt veiði hefur verið hjá línubátunum í Breiðafirði þegar gefur á sjó. Í þremur síðustu róðrum Brynju SH á árinu 2010 veiddist alls 22 tonn á 86 bala, sem er um 255 kíló á bala að meðaltali, að því er Heiðar Magnússon, skipstjóri og útgerðarmaður Brynju, sagði í samtali við Fiskifréttir.

Fram kom hjá Heiðari að mikil ýsuveiði hefði verið í Breiðafirði í haust. Sérstaklega hefði hlaupið á snærið hjá þeim seint í september og í október. Þá voru þeir að veiðum við Stykkishólm, nálægt landi alveg upp að 6 föðmum, og fengu “dry” stórýsu. ,,Hér í Breiðafirði er nóg af ýsu og hún hefur síst minnkað. Við höfum fiskað meira af ýsu núna en á sama tíma í fyrra. Við á línubátunum sjáum ekki minnkun þótt trollbátarnir eigi í erfiðleikum með að veiða ýsu. Kannski gengur hún á önnur mið en áður. Eflaust var full ástæða til að skera ýsukvótann eitthvað niður en ekki eins mikið og gert var,“ sagði Heiðar.