þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nokkrar forvitnilegar staðreyndir um hafið

12. maí 2018 kl. 13:00

Heildarþyngd heimshafanna samtals mun vera nálægt 1.400 þúsund milljörðum tonna. MYND/EPA

Vatnsmagnið í öllum heimshöfunum samanlagt er að öllum líkindum um það bil 1,38 milljarðar ferkílómetra að rúmmáli og 1.400 þúsund milljarðar tonna að þyngd.

Þetta fullyrðir norski haffræðingurinn Svein Sundby, sérfræðingur á norsku Hafrannsóknarstofnuninni, á vísindavefnum www.forskning.no þar sem hann er spurður út í ýmsar staðreyndir um hafið sem fólk almennt veltir ekki mikið fyrir sér.

Hann segir tiltölulega einfalt að reikna út vatnsmagnið og þyngdina. Hafið dekki um það bil 71 prósent af yfirborði jarðar og er að meðaltali 3,8 kílómetrar að dýpt. Þannig að til að reikna út rúmmálið þarf bara að taka flatarmál jarðar og margfalda með 0,71 og síðan margfalda útkomuna aftur með 3,8.

Djúpt við botn í Noregshafi
Hann er einnig spurður hvar elsta hafið er að finna á jörðinni og hvar þyngsta hafið er.

Hann segir sjóvatn almennt vera 2,5 prósentum þyngri en ferskvatn, en allra þyngsta sjóvatnið sé að öllum líkindum djúpt í Noregshafi, alveg niðri við botn. Þar er hver fersentimetri sjávar um það bil 1,028 gramm að þyngd.

„Það er brjálæðislega þungt,“ segir Sundby, og útskýrir fyrir lesendum að sjórinn þyngist eftir því sem hann kólnar meira og seltan verður meiri. Fyrir fjórum áratugum eða svo hafi yfirborð sjávar í Barentshafi kólnað mikið og sokkið til botns djúpt við Bjarnarey suður af Svalbarða. Þar sé þetta þunga vatn ennþá því síðan þá hafi kuldarnir ekki verið nógu miklir til að sökkva nýju vatni þetta djúpt.

„Satt að segja hefur ekki myndast nýr botnsjór í Noregshafi undanfarin 30 ár vegna hlýnunar andrúmsloftsins,“ segir Sundby.

Þá segir hann elsta sjóvatn heims vera að finna djúpt í Kyrrahafinu, þar sem engin endurnýjun hafi verið á botnsjónum mjög lengi. Sums staðar geti hann verið meira en tvö þúsund ára gamall og að sama skapi afar súrefnissnauður orðinn.

Golfstraumurinn snýr aldrei við
Fleiri staðreyndir nefnir Sundby um hafið, þar á meðal að hafið taki til sín 95 prósent af allri hlýnun andrúmsloftsins. Auk þess fullyrðir hann að yfirborð hafsins hækki ekki vegna þess að ísinn bráðni heldur vegna þess að þegar hafið hlýnar þá þenst það út.

Við þurfum heldur ekki að hafa neinar áhyggjur af því að Golfstraumurinn muni snúa við og taka að streyma til suðurs, þótt einhverjir hafi nefnt þann möguleika fyrir nokkrum árum.

„Ef Golfstraumurinn ætti að snúa við þá þyrfti jörðin að taka upp á því að snúast í hina áttina,“ segir hann. Snúningur jarðar og landslagið á hafsbotninum valdi því að haf muni alltaf streyma þá leið sem Golfstraumurinn liggur. Á hinn bóginn geti hlýnun andrúmsloftsins orðið til þess að Golfstraumurinn verði miklu kraftminni en hann er nú.