sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn fá aukinn úthafskarfakvóta

22. desember 2011 kl. 09:00

Úthafskarfi (Mynd: Einar Ásgeirsson)

Grænlendingar og Noregur semja um gagnkvæmar veiðiheimildir á næsta ári.

Nú í vikunni var endurnýjaður gagnkvæmur fiskveiðisamningur Noregs og Grænlands fyrir næsta ár. Samningurinn felur m.a. í sér að Grænlendingar auka úthafskarfakvóta Norðmanna úr 300 tonnum í 1.500 tonn en karfakvóti veiddur í botntroll eða á línu verður óbreyttur 400 tonn.

Grálúðukvóti Norðmanna við Austur-Grænland verður óbreyttur en lúðukvótinn minnkar í 160 tonn. Grálúðukvóti Norðmanna við Vestur-Grænland verður óbreyttur 900 tonn og þeir fá áfram að veiða 750 tonn af þorski þar. Að auki fá Norðmenn 150 tonna af öðrum kvótategundum fyrir meðafla.

Í staðinn eykst þorskkvóti Grænlendinga í norskri lögsögu upp í 3.200 tonn sem er 1.050 tonna viðbót frá því sem gilt hefur á þessu ári. Þá hefur ýsukvótinn verið aukinn í 1.050 tonn og ufsakvótinn verður áfram 1.000 tonn. Að auki fá Grænlendingar allt að 260 tonna kvóta af öðrum tegundum fyrir meðafla.