mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn fjárfesta grimmt í ljósátuveiðum

19. september 2012 kl. 10:58

Ljósáta

Eitt fyrirtækið hefur lagt 17 milljarða ísl. króna í ævintýrið.

Norðmenn vænta sér mikils af ljósátuveiðum í Suður-Íshafinu og eru óhræddir við að hætta stórum fjárfúlgum í ævintýrið. Fiskeribladet/Fiskaren í Noregi skýrir frá því að Emerald Fisheries sem er í meirihlutaeigu norska stórútgerðarmannsins Stig Remöy, hafi fjárfest fyrir rúmlega 800 milljónir norskra króna eða jafnvirði 17 milljarða íslenskra króna í ljósátuveiðum, þar af  hafa 15,5 milljarðar farið í skipið Juvel sem annast veiðarnar. Fyrirtækið hefur hingað til verið rekið með tapi en forsvarsmenn þess segja að dæmið snúist við þegar á þessu ári. Þá hefur Emerald Fisheries aflað sér veiðileyfis fyrir annað ljósátuveiðiskip og gæti þar með orðið einn stærsti framleiðandi á ljósátuafurðum í heiminum.

Annað norskt fyrirtæki, Aker Biomarine, sem er í eigu Kjeld Inge Rökke, hefur einnig haslað sér völl í þessum veiðum og er einnig með veiðileyfi fyrir tvö skip í Suður-Íshafinu. Norðmenn hafa fengið veiðileyfi þar suður frá á grundvelli þess að norskir landkönnuðir helguðu Noregi landsvæði á þessum slóðum á sínum tíma. Veiðunum er stjórnað með kvótum af sérstakri stofnun sem hafa á eftirlit með því að ljósátan sé ekki ofveidd.  Leyfilegt að veiða samtals 620.000 tonn af ljósátu á ári, en áætlað er að heildarmagnið í sjónum sé um 60 milljónir tonna.

Afurðir ljósátunnar, mjöl og lýsi, þykja verðmætar og eru notaðar í heilsuvörur og lyf.