miðvikudagur, 11. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn hreinsa upp þrjú þúsund net á tveim árum

11. nóvember 2013 kl. 13:31

Netadruslur hreinsaðar upp úr sjónum. (Mynd af vef norska sjávarútvegsráðuneytisins)

„Dapurlegt hvernig fiskimenn ganga um auðlindina,“ segir talsmaður norska sjávarútvegsráðuneytisins

Árlegu hreinsunarstarfi á veiðarfærabúnaði sem tapast hefur meðfram ströndum Noregs er nú lokið. Magn veiðarfæra sem hreinsað var upp að þessu sinni er svipað og á síðasta ári. Talsmaður norska sjávarútvegsráðuneytisins segir það vera dapurlegt hvernig fiskimenn ganga um auðlindina, sitt eigið lifibrauð.   

Hreinsunarleiðangurinn fór fram 23. ágúst til 2. október. Mest voru það net og netadræsur sem híft var upp. Í leiðangrinum að þessu sinni voru tekin upp og færð í land um 900 net, 5.300 metrar af reipi, 11.600 metrar af vírum, 3 rækjutroll og margt fleira. Hér eru á ferðinni veiðarfæri sem tapast hafa í sjóróðrum en einnig búnaður sem hreinlega hefur verið hent í sjóinn, svo sem slitnir togvírar. 

Í ár og í fyrra voru hreinsuð upp samtals 3000 net.  

Norðmenn telja mikilvægt að hreinsa „veiðarfærarusl“ upp úr sjónum. Af þessu rusli er mikil mengun og sum net, svokölluð drauganet, fljóta í sjónum og halda áfram að veiða fisk og valda með því ómældum skaða.