mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn íhuga umhverfisvottun undir eigin merki

6. maí 2014 kl. 08:00

Fiskibátur við bryggju í Noregi.

Það myndi leysa af hólmi MSC eða annað vottunarferli alþjóðlegra samtaka.

Norsk stjórnvöld íhuga að koma á fót eigin umhverfismerki um vottaðar sjálfbærar veiðar, líkt og Íslendingar og Alaskabúar hafa gert. Sú vottun myndi keppa við vottun undir merkjum alþjóðlegra samtaka á borð við MSC.

Norska matvælarannsóknastofnunin (Nofima) hefur gert athugun á möguleikum þessa og er þeirrar skoðunar að markaðurinn myndi viðurkenna vottun af því tagi, að því er Björg Nöstvold sérfræðingur hjá Nofima segir. 

Fram kemur á sjávarútvegsvefnum Seafoodsource.com að Nofima hafi kannað þá leið sem Ísland og Alaska hafi farið í þessu efni þar sem byggt sé stöðlum FAO um sjálfbærar fiskveiðar. Stofnunin bendir á að Íslendingar og Alaskabúar noti bæði óháða vottun undir eigin merki og MSC-vottun. Þetta geti Norðmenn einnig gert en það sé frekar óhagkvæmt og myndi stuðla að hækkuðu fiskverði og auknum kostnaði í fiskiðnaðinum. 

„Við ættum því frekar að stefna að einni vottun undir norsku merki jafnvel þótt nauðsynlegt kunni að verða að halda í MSC-vottunina um tíma meðan verið er að koma hinu á,“ segir Björg Nöstvold.