laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn kvarta: Verðum að kunna íslensku

17. janúar 2014 kl. 11:19

Röttingoy frá Bergen landar loðnu á Fáskrúðsfirði. (Mynd: Óðinn Magnason)

Reglugerðir um veiðar erlendra skipa við Ísland ekki lengur þýddar á ensku.

„Norskir skipstjórar sem veiða í íslenskri lögsögu verða nú meðal annars að skilja hvað „efnahagslögsaga“ þýðir. Ástæðan er sú að Íslendingar þýða ekki lengur fiskveiðireglugerðir úr íslensku yfir á ensku.“

Svo segir í frétt á vef norskra útvegsmanna (fiskebat.no) í dag og því bætt við að þetta varði norska skipstjóra bæði loðnuskipa og línuskipa sem hafi heimildir til veiða í íslenskri lögsögu. 

Bent er á í fréttinni að aðrar erlendar þjóðir, þeirra á meðal Rússar, þýði reglugerðir sínar sem varði veiðiskip annarra landa ávallt yfir á ensku og áður hafi Íslendingar haft sama háttinn á, en nú sé breyting á því. 

Í íslenska sjávarútvegsráðuneytinu fengu Fiskifréttir staðfest að tekin hefði verið ákvörðum um að hætta að þýða reglugerðirnar í sparnaðarskyni. Mikill kostnaður hefði fylgt þýðingunum og engin kvöð eða skylda til að gera slíkt. Jafnframt var bent á að íslensk skip sem veiddu í norskri lögsögu fengju reglugerðir þar að lútandi á norsku.