laugardagur, 27. febrúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn missa vottanir

Guðsteinn Bjarnason
12. janúar 2021 kl. 10:00

Makríll á ís.

Stefnir í að einungis 38 prósent af norskum fiskveiðum verði með sjálfbærnivottun um komandi páska.

Um næstu páska verða væntanlega einungis 38 prósent af norskum fiskveiðum með sjálfbærnivottun samkvæmt stöðlum MSC. Það verður stór breyting frá árinu 2018 þegar 92 prósent veiðanna voru MSC-vottaðar.

Norska Fiskeribladet greinir frá.

„MSC er fyrirkomulag sem við höfum gengist inn á vegna þess að það er nauðsynlegt til að vera eftirsóknarverð á markaði,“ segir blaðið. „Að missa vottunarskírteinin veldur útflytjendum væntanlega töluverðum erfiðleikum.“

Nú þegar hafa Norðmenn, rétt eins og Íslendingar og önnur strandríki við Norðaustur-Atlantshaf, misst vottun veiða á makríl og norsk-íslenskri sumargotssíld vegna þess að ekkert samkomulag hefur tekist um skiptingu heildaraflans milli ríkjanna. Kolmunnaskírteinið er sömuleiðis að falla af sömu ástæðu, en þar að auki stefnir allt í að Norðmenn missi sjálfbærnivottun á þorskveiðum innan 12 mílna, en ástæðan þar er sú að ástand staðbundnu innfjarðarþorskanna í Noregi hefur verið að versna töluvert.