

Um næstu páska verða væntanlega einungis 38 prósent af norskum fiskveiðum með sjálfbærnivottun samkvæmt stöðlum MSC. Það verður stór breyting frá árinu 2018 þegar 92 prósent veiðanna voru MSC-vottaðar.
Norska Fiskeribladet greinir frá.
„MSC er fyrirkomulag sem við höfum gengist inn á vegna þess að það er nauðsynlegt til að vera eftirsóknarverð á markaði,“ segir blaðið. „Að missa vottunarskírteinin veldur útflytjendum væntanlega töluverðum erfiðleikum.“
Nú þegar hafa Norðmenn, rétt eins og Íslendingar og önnur strandríki við Norðaustur-Atlantshaf, misst vottun veiða á makríl og norsk-íslenskri sumargotssíld vegna þess að ekkert samkomulag hefur tekist um skiptingu heildaraflans milli ríkjanna. Kolmunnaskírteinið er sömuleiðis að falla af sömu ástæðu, en þar að auki stefnir allt í að Norðmenn missi sjálfbærnivottun á þorskveiðum innan 12 mílna, en ástæðan þar er sú að ástand staðbundnu innfjarðarþorskanna í Noregi hefur verið að versna töluvert.