þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn náðu loðnukvóta sínum við Ísland

16. febrúar 2015 kl. 12:28

Norski loðnubáturinn Endre Dyroy landar á Fáskrúðsfirði. (Mynd: Óðinn Magnason)

Krefjandi vertíð vegna slæms veðurs, segir á vef norska síldarsölusamlagsins

Veiðum norskra loðnuskipa við Ísland lauk 15. febrúar og náðu þau kvóta sínum sem er rúm 50 þúsund tonn, að því er fram kemur á vef norska síldarsölusamlagsins.

Þar segir einnig að vertíðin hafi verið mjög krefjandi vegna slæms veðurs ekki síst síðasta vika. Veiðarnar fóru þá fram norðan við land og allt vestur á 21. gráðu. Loðnan þar er smá eða upp í 55 stykki í kílóinu.

Norsku skipin veiddu 3.875 tonn af loðnu við Ísland í síðustu viku og voru 3.525 tonn seld til manneldisvinnslu.Í síðustu viku var verðið á loðnunni á bilinu 2,60 til 3,11 krónur norskar á kíló. Meðalverðið í síðustu viku var 2,71 króna til manneldisvinnslu (47 ISK) og 2,3 krónur í mjöl- og lýsisvinnslu (40 ISK).

Í heild seldu Norðmenn um 27 þúsund tonn af loðnu til manneldisvinnslu á vertíðinni og 23.500 tonn fóru í mjöl- og lýsisvinnslu.

Veiðar norskra skipa á loðnu í Barentshafi hófust í síðustu viku. Aðeins einn bátur, Trønderbas, fékk þá um 760 tonn. Loðnan var smá, eða 55 til 65 stykki í kílóinu. Veður hindraði veiðar mest alla vikuna en á laugardaginn héldu fimm bátar til veiða.