laugardagur, 28. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðurslóðaleiðangur í þágu loftslagsmála

Guðsteinn Bjarnason
14. júlí 2019 kl. 07:00

Arved Fuchs á skútunni sinni, Dagmar Aaen. MYND/Arved Fuchs Expeditionen

Þýski heimskautafarinn og landkönnuðurinn Arved Fuchs hefur áratugum saman siglt skútu sinni um heimshöfin. Skútan var í Húsavíkurhöfn í vetur en hélt í vikunni áleiðis til Grænlands.

„Viðgerðirnar gengu vel,“ sagði Arved Fuchs þegar Fiskifréttir náðu tali af honum í síðustu viku þar sem hann var staddur á Ísafirði að dytta að skútu sinni, Dagmar Aaen.

Skútan, nærri 90 ára gamall vélknúinn eikarkútter frá Danmörku, var í veturlegu í Húsavík vegna bilunar sem kom upp síðasta sumar.

„Um páskana tókum við skipið í slipp til viðgerða og síðan hefur allt gengið vel. Þetta voru umfangsmiklar viðgerðir, við vorum í erfiðleikum með skrúfubúnaðinn en það er allt komið í lag.“

Fuchs keypti kútterinn fyrir þrjátíu árum eftir að hætt var að nota hann til fiskveiða. Hann gerði breytingar á skipinu svo það henti til heimskautasiglinga og hefur síðan haldið í leiðangra víða um heimshöfin.

Ferðin hér á landi er partur af leiðangrinum Ocean Change sem, eins og reyndar flestir aðrir leiðangrar hans á Dagmar Aaen síðustu áratugina, er öðrum þræði farinn til að vekja athygli á loftslagsbreytingum.

Íslensk kona, Sigríður Ragna Sverrisdóttir, hefur tekið þátt í mörgum leiðöngrum hans, meðal annars til Suðurskautsins, um Kyrrahafið og til Scoresbysunds, öðru nafni Ittoqqortoormiit, á Grænlandi.

Mælingar og lausnir
Nú hefur stefnan verið tekin til Grænlands og þar á að sinna rannsóknum í þágu loftslagsmála.

„Sjálfur er enginn vísindamaður, en við bjóðum vísindamönnum að vera með okkur og þeir hyggjast meðal annars gera rannsóknir á Grænlandi. Við söfnum plasti á ströndunum og það verður að fylgja alveg ákveðnu kerfi til þess að gögnin verði marktæk. Við gerum líka rannsóknir á örplasti, tökum sýni úr hafinu með þar til gerðu neti. Á Grænlandi gerum við líka mælingar á jöklum vegna loftslagsbreytinga, enda hafa breytingarnar á Grænlandi verið mjög örar.“

Hann segir leiðangursmenn þó gæta þess að bara benda á vandamálin heldur leggi sig líka fram um að kynna mögulegar lausnir.

„Á Íslandi höfum við til dæmis verið að skoða carbfix-verkefnið sem bindur koltvísýring. Við höfum kynnt hugmyndir um vindmyllugarða og sjávarfallavirkjanir, og annað sem sem sýnir fólki að til eru ýmsar tæknilegar lausnir til að takast á við loftslagsbreytingar. Slíku þarf að hrinda í framkvæmd og það þarf að gerast hratt.“

Hefur róast með aldrinum
Árið 1989 vann Fuchs það afrek að verða fyrstur manna til þess að komast á sama árinu bæði á Norðurpólinn og Suðurpólinn, ýmist fótgangandi eða á skíðum. Hann segist hafa róast töluvert með árunum, láti sér siglingarnar nægja nú en skútuna Dagmar Auen keypti hann fyrir um 30 árum.

„Á þessum tíma var ég náttúrlega með mikinn íþróttametnað. Þetta var sem ég lagði stund á þá var í raun og veru afreksíþrótt, en nú er ég orðinn svolítið eldri. Ég hef ennþá gaman af þessu, en auðvitað er það á allt öðrum forsendum núna. En ég hef öðlast mikla reynslu og er með gott fólk með mér.“