laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norebo og Gidrostroy tróna efst

Guðjón Guðmundsson
10. október 2020 kl. 13:00

Rússar eru hægt en örugglega að vinna upp tækniforskot samkeppnislanda sinna. Aðsend mynd

Listi Forbes yfir stærstu sjávarútvegsfyrirtæki Rússland

Samanlögð velta tíu stærstu sjávarútvegsfyrirtækja Rússlands var á síðasta ári 238 milljarðar rúblna, um 516 milljarðar ÍSK, að mati bandaríska viðskiptatímaritsins Forbes. Norebo Holding trónir þar efst á listanum með veltu upp á næstum 135 milljarða ÍSK.

Norebo er í eigu Vitaly Orlov sem á árunum 2011-2013 keypti upp samkeppnisfyrirtæki í landinu og varði til þess rúmum, 81 milljarði ÍSK. Deilt er um þessa ráðstöfun enn í dag fyrir dómstólum í Bretlandi. Norebo samstæðan á 16 sjávarútvegsfyrirtæki og er 100% í eigu Orlovs. Framkvæmdastjóri Norebo í Evrópu er Sturlaugur Haraldsson og sölustjórar eru Kristján Hjaltason og Andri Geir Alexandersson. Auk þess starfa hjá fyrirtækinu gæðastjórarnir Magnús Kristjánsson og Steindór Sverrisson. Fyrirtækið er nú að láta smíða fyrir sig 10 togara sem er fjárfesting upp á tæpa 94 milljarða ÍSK. Nýsmíðarnar byggja á hönnun Nautic og ýmis búnaður í þeim verður frá íslenskum tæknifyrirtækjum.

Gidrostroy

Annar á lista Forbes er Alexander Verkhovsky, eigandi Gidrostroy. Þar koma íslensk fyrirtæki einnig mikið við sögu. Skaginn 3X, Kælismiðjan Frost og Rafeyri settu upp tæknibúnað í uppsjávarverksmiðju fyrirtækisins á Shikotan-eyju. Verksmiðjan er búin lausnum frá fyrirtækjunum þremur til að flokka, pakka og frysta 900 tonn af uppsjávarfisk á sólarhring. Vladimír Pútín Rússlandsforseti ræsti verksmiðjuna fyrir einu ári. Velta Gidrostroy er, samkvæmt Forbes, 34,6 milljarðar rúblna á síðasta ári, um 75 milljarðar ÍSK. Forbes metur auðævi Verkohvsky á um 109 milljarða ÍSK.

Í næstu sætum á lista Forbes eru North-West Fishing Consortium (32,2 milljarðar rúblna), Okeanrybflot (26,6 milljarðar rúblna), Russian Fishery Company (21,6 milljarðar rúblna), Salmonica Group (17,3 milljarðar rúblna), Sigma Marine International (14 milljarðar rúblna), FEST-Group (12,7 milljarðar rúblna), FOR-Group (11,5 milljarðar rúblna) og NBAMR (10 milljarðar rúblna).