laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur: Endurnýjun fiskiskipaflotans forgangsmál

7. febrúar 2011 kl. 16:00

Norski togarinn Langvin

Meðalaldur úthafsflotans er 19 ár

Samtök norskra útvegsmanna telja að endurnýjun fiskiskipaflotans eigi að vera forgangsmál í sjávarútvegsstefnu Norðmanna, að því er fram kemur á vef samtakanna.

Ástæðan er sú að fiskiskipaflotinn er að eldast á sama tíma og stjórnvöld og greinin sjálf eru sammála um að gera flotann umhverfisvænni.

Meðalaldur úthafsflota Norðmanna er 19 ár og það þarf að smíða 10 skip á ári til að koma í veg fyrir að flotinn eldist enn meir. Á síðasta ári var hins vegar aðeins afhent eitt nýsmíðað skip.

Samtök útvegsmanna leggja áherslu á að með því að setja aukinn kraft í nýsmíðar megi tryggja að metnaðarfull áform um umhverfisvænan flota verði að veruleika. Leggja samtök til að stjórnvöld og greinin sjálf taki höndum saman um að örva nýsmíðar.