föstudagur, 15. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur: Hærra verð greitt fyrir smáa síld til bræðslu

12. febrúar 2010 kl. 15:10

Vegna verðlækkunar á frystri síld landa Norðmenn nú síld til bræðslu í auknum mæli. Fram til 1. febrúar í ár hefur um 26 þúsund tonnum af síld verið landað til bræðslu samanborið við tæp 8 þúsund tonn á sama tíma í fyrra, að því er fram kemur á fréttavefnum fis.com.

Fiskimjölsverksmiðjur greiða nú 43% hærra hráefnisverð fyrir bræðslusíldina en í upphafi árs í fyrra. Meðalverðið hefur hækkað úr 177 evrum (31.330 kr. ísl.) á tonnið upp í 254 evrur (44.900 kr. ísl.). Á sama tíma hefur meðalverð á síld sem landað er til manneldisvinnslu lækkað, fór úr 285 evrum niður í 272 evrur (48.100 kr. ísl.).

Meðalverðið segir að sjálfsögðu ekki alla söguna. Lágmarksverð í Noregi fyrir síld að stærðinni 125-199 grömm sem landað er til manneldisvinnslu er aðeins 184 evrur á tonnið. Fyrir síld sem vegur 200-299 grömm er greidd að lágmarki 221 evra á tonnið. Aðeins þegar landað er síld sem vegur meira en 300 grömm er lágmarksverð sem greitt er fyrir síld til manneldisvinnslu hærra en það verð sem er í boði fyrir bræðslusíld.