sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur: Hrun í saltfiskútflutningi

9. júní 2009 kl. 12:05

Fyrstu fimm mánuði ársins dróst útflutningur Norðmanna á saltfiski saman um næstum 60% og verðið fyrir vöruna lækkaði um 24%. Þessi þróun er ekki hvað síst ástæðan fyrir þeirri kreppu sem nú ríkir í þorskveiðum og þorskvinnslu í Noregi.

Útflutningur saltfisks er jafnan mestur fyrri hluta ársins, en hann dróst saman frá fyrra ári um 11.000 tonn, fór úr 19.000 tonnum í 8.000 tonn, að því er fram  kemur í tölum norska fiskútflutningsráðsins. Meðalverðið lækkaði úr 46 norskum krónum í 35 krónur kílóið milli ára.

Skreið er nú stærsta útflutningsvara þorsks frá Noregi. Af henni voru flutt út næstum 11.000 tonn sem er 14% aukning í magni. Skreiðarverðið hefur hins vegar lækkað úr 61 norskri krónu kílóið í 51 krónu að meðaltali.

Þá kemur fram í áðurnefndum tölum að  61% aukning hafi orðið í útflutningi ferskra flaka og 20% aukning í ferskum heilum þorski. Útflutningur á blokkfrystum þorski hefur minnkað um nær helming milli ára og frystur fiskur hefur lækkað mest í verði eða um næstum 40%.