þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur: Nýjum sjávarútvegsráðherra vel tekið

21. október 2009 kl. 16:09

-- sögð hafa efnast á laxeldi og eigi 50 milljónir norskra króna

Lisbeth Berg-Hansen, nýjum sjávarútvegsráðherra Noregs, hefur verið vel tekið. Hún er stjórnmálamaður sem tekið hefur virkan þátt í fiskiðnaði og því er líka slegið upp í norskum fjölmiðlum að hún sé forrík og tekjuhæsti ráðherrann í norsku ríkisstjórninni.

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, tilkynnti í síðustu viku að Lisbeth Berg-Hansen yrði nýr sjávarútvegsráðherra Noregs og tekur hún við af Helgu Pedersen. Stoltenberg segir að Lisbeth Berg-Hansen sé öllum hnútum kunnug í stjórnmálum og sjávarútvegi. Hún sé fulltrúi strandbyggða í Noregi og á tímum efnahagsþrenginga sé mikilvægt að vernda störf í sjávarbyggðum.

Í norskum fjölmiðlum má sjá að útnefning Lisbeth Berg-Hansen hefur mælst vel fyrir hjá forsvarsmönnum í sjávarútvegi enda kemur hún úr þeirra röðum. Hún er 46 ára að aldri og hefur m.a. verið stjórnarmaður í Aker Seafoods ASA, stærsta útgerðarfyrirtæki Noregs. Hún er einnig meðeigandi og stjórnarmaður í laxeldisfyrirtækinu Sinkaberg-Hansen AS. Á árunum 2000-2008 var hún varaformaður í samtökum norskra vinnuveitenda.

Skattskráin var nýlega birt í Noregi og fjölmiðlar rýna nú í tekjur ráðherra. Þar kemur í ljós að Lisbeth Berg-Hansen greiðir mestan skatt allra ráðherra í norsku ríkisstjórninni. Finansavisen í Noregi slær því svo upp með stríðsletri á forsíðu að Lisbeth Berg-Hansen sé forrík, hafi efnast á laxeldi og eigi litlar 50 milljónir norskra króna, rúman milljarð íslenskra króna.