mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur og ESB skipti makrílkvótanum án Íslands og Færeyja

28. janúar 2014 kl. 14:00

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Danskir hagsmunaaðilar langeygir eftir lausn í makríldeilunni

Framkvæmdastjóri samtaka danskra uppsjávarfyrirtækja, Esben Sverdrup-Jensen, vill að ESB og Noregur taki af skarið og ákveði sín í milli skiptingu veiða úr makrílstofninum á árinu 2014. Þetta kemur fram á sjávarútvegsvefnum fiskeritidende.dk.

Jensen segir að þeir séu orðnir langeygir eftir lausn í makríldeilunni eftir meira en tuttugu árangurslausa samningafundi á síðustu fjórum árum. Brýnt sé að ákvörðun um kvóta ársins 2014 liggi fyrir, ekki aðeins í makríl heldur einnig í norsk-slenskri síld. Þar sem ekki hafi verið samið um kvóta hafi danskir fiskimenn ekki aðgang að norskri lögsögu til að veiða síld. Þetta kosti danska uppsjávarflotann meira en 50 milljónir króna (1 milljarð ISK) í minni umsvifum í janúarmánuði einum.

Jensen heldur því fram að hvorki Færeyjar né Ísland vilji taka þátt í ábyrgri nýtingu makrílstofnsins. Í stað þess að halda sjómönnum í gíslingu verði Noregur og ESB því að ákveða nú þegar sín í milli, án atbeina Íslands og Færeyja, hvernig veiðum verði hagað í ár.