föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur: Óttast gjaldþrotahrinu í Lófóten

28. september 2009 kl. 12:04

Fiskvinnslufyrirtæki í Lófóten í Norður-Noregi, mikilvægasta vertíðarsvæði landsins, standa mörg hver afar illa vegna mikillar verðlækkunar á þorskafurðum á yfirstandandi ári. Óttast er að fjöldi fyrirtækjanna verði gjaldþrota, að því er norska ríkisútvarpið (NRK) skýrir frá.

Saltfiskframleiðendur hafa orðið sérstaklega illa úti enda hafa verðlækkanirnar verið einna mestar á saltfiski. Það hefur svo aukið á vandann, að skreið á Ítalíumarkaði hefur einnig stórlækkað í verði, en margir norskir saltfiskframleiðendur eru einnig í skreiðarverkun.

Norska ríkisstjórnin hefur boðað að kreppulán verði veitt þeim fyrirtækjum sem lífvænleg þykja en ljóst er að margir framleiðendur munu ekki falla undir þá skilgreiningu.

Greiningarfulltrúi hjá Nordea Markets segir í samtali við NRK að margir samverkandi þættir hafi valdi því hvernig komið sé fyrir fiskiðnaðinum í Norður-Noregi. Þorskur hafi í mörg ár verið of hátt verðlagður á mörkuðum, fjármálakreppan hafi leikið fyrirtækin grátt og fyrirhuguð kvótaaukning á þorski í Barentshafi á næsta ári muni svo enn auka á vandann.

Fiskveiðarnar í Lófóten eru hefðbundar vertíðarveiðar. Þær hefjast venjulega í lok janúar og standa fram í apríl og byggjast á þorski sem gengur úr Barentshafi inn til hrygningar við ströndina.