sunnudagur, 15. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur: Um 80 skip komin á loðnuveiðar

1. mars 2010 kl. 15:00

Loðnuveiðar Norðmanna eru komnar vel á veg en veiðum á norsk-íslensku síldinni er að ljúka.

Í síðustu viku tilkynntu norsk skip um veiðar á 12.900 tonnum af norsk-íslenskri síld. Vertíðinni lauk í síðustu viku hjá flestum skipum.

Veiðar á loðnu í Barentshafi og við strönd Finnmerkur eru komnar vel á veg. Um 80 skip taka þátt í veiðunum og fleiri bátar voru á leiðinni. Tilkynnt var um veiðar á um 26.500 tonnum af loðnu í vikunni. Stærðin er um 36-45 stykki í kílóinu. Í lok vikunnar var hrognafylling loðnunnar komin í 15%.

Tilkynnt var um veiðar á 21.600 tonnum af kolmunna. Veiðarnar fóru bæði fram á alþjóðlegu hafsvæði og inni í lögsögu ESB. Veður var hagstætt og veiðin góð. Mörg kolmunnaskipin hafa nú snúið sér að loðnuveiðum. Áfram er þó góð eftirspurn eftir kolmunna til manneldis. Fyrir hann er greitt í kringum 2,43 krónur norskar á kílóið eða 52,73 krónur íslenskar.

Heimild: Norges Sildesalgslag