fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur: Útrýmingarherferð gegn kóngakrabba

2. október 2009 kl. 15:00

Norska sjávarútvegsráðuneytið tilkynnti í dag að ákveðið hefði verið að verja um 5 milljónum norskra króna, um 110 milljónum ísl. kr., til að útrýma kóngakrabba á tilteknu svæði.

Fyrst varð vart við kóngakrabba svo nokkru nemi úti fyrir Norður-Noregi seint á tuttugustu öldinni og hefur hann síðan fært sig vestur og suður með ströndinni. Er hann mikill þyrnir í augum fiskimanna þótt hér sé um nýja nytjategund að ræða.

Í átakinu gegn kóngakrabba, sem nú er að hefjast, verða leigð skip til að stunda markvissar veiðar fyrir vestan 26° austur. Vonast er til að unnt verði að takmarka frekari útbreiðslu krabbans vestur um og er þessi aðgerð í fullu samræmi við ákvarðanir þingsins um stjórn veiða á kóngakrabba, að sögn Helgu Pedersen sjávarútvegsráðherra.

Ráðgert er að skipin veiði fyrst og fremst krabba sem lítið verðmæti er í og að því stefnt að veiðarnar verði ekki í samkeppni við skip sem nytja kóngakrabba en veiðar á honum eru frjálsar.

Heimild: IntraFish