þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur: Verðmæti síldarútflutnings yfir 50 milljarðar íslenskra króna

28. október 2009 kl. 15:17

Mikill uppgangur er í síldariðnaði í Noregi. Útflutningur á heilfrystri síld og síldarflökum það sem af er árinu er nú kominn í 2,4 milljarða norskra króna, um 50 milljarðar íslenskir. Þetta er 376 milljónum norskra króna meiri útflutningur en á sama tíma í fyrra.

Vel hefur gengið að selja síldina og fer hún viðstöðulaust inn á ESB-markaðinn. Það sem af er árinu hafa ESB-ríkin flutt inn 20 þúsund tonnum meira af heilfrystri síld en á sama tíma í fyrra. Verðið er hins vegar 20 aurum lægra á kílóið.

Verðið á frystum síldarflökum er að meðaltali 8,9 norskar krónur á kíló, 187 krónur íslenskar, og hefur það hækkað verulega. Á sama tíma í fyrra fengust 6,94 krónur norskar fyrir kíló af síldarflökum. Útflutningur á síldarflökum frá Noregi til ESB-ríkja hefur aukist um 11 þúsund tonn miðað við árið í fyrra.

Heimild: IntraFish