þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn áforma 30-50 þús. tonna framleiðslu eldisþorsks

6. október 2008 kl. 11:25

Þriðja alþjóðlega ráðstefnan um þorskeldi var haldin í Reykjavík dagana 30. september og 1. október s.l.

Ráðstefnuna sóttu 155 manns, þar af voru 75 erlendir þátttakendur, 50 frá Noregi 7 frá Færeyjum 6 frá Kanada auk þátttakenda frá Danmörku, Írlandi, Svíþjóð, Bandaríkjunum og Þýskalandi.

Á ráðstefnunni voru haldin 30 erindi sem fjölluðu um rannsóknir í þorskeldi á Norðurlöndunum og helstu verkefni sem unnið er að á þessu sviði. Minnkandi framboð á villtum hvítfiski hefur aukið áhuga á eldisframleiðslu.

 Hinn mikli fjöldi Norðmanna á ráðstefnunni vakti athygli, en það endurspeglar hina miklu áherslu sem Norðmenn leggja á rannsóknir og framleiðslu eldisþorsks.

Norsk fiskeldisfyrirtæki áforma að auka eldisþorskframleiðslu verulega á næstu árum og er gert ráð fyrir að framleiðslan verði 30-50 þúsund tonn árið 2010.

Hér á landi hefur þorskeldi einkum byggst á söfnun ungþorsks, sem síðan hefur verið alinn í kvíum. Framleiðslan hefur verið um 1500 tonn á ári.

Framleiðslan hefur m.a. takmarkast af litlu framboði á þorskseiðum til eldis. Á næstunni mun nefnd sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra skila tillögum um aðgerðir sem miða að því að auka framleiðslu þorskseiða, þannig að framleiðsla eldisþorsks geti aukist hér á landi.

Frá þessu er skýrt í vefriti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.