þriðjudagur, 28. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn auka fisksölu til Bretlands

26. maí 2010 kl. 12:26

Útflutningur á þorski frá Noregi til Bretlands hefur aukist að undanförnu samhliða því að dregið hefur úr framboði frá Íslandi, að því er fram kemur á sjávarútvegsvefnum FISHupdate.com

Í síðasta mánuði jókst sala á ferskum þorski frá Noregi til Bretlands um 64% miðað við sama mánuð í fyrra og nam verðmætið 7 milljónum sterlingspunda, jafnvirði liðlega 1.300 milljóna íslenskra króna. Sala á ferskri ýsu jókst einnig. Hluti söluhækkunarinnar stafar af verðhækkunum milli ára.

Á vefnum segir að Ísland sé áfram aðalviðskiptaland Breta í þorski og ýsu en vegna þess hve sterlingspundið sé veikt hafi íslensk fiskvinnslufyrirtæki sent meira af fiski til Bandaríkjanna og meginlands Evrópu. Þessi þróun valdi breskum vinnslufyrirtækjum áhyggjum.

Söluaukning á norskum fiski til Bretlands er ekki bundin við ferskan fisk. Útflutningur á á frystum þorsk til Bretlands jókst í aprílmánuði um 66% miðað við sama mánuð í fyrra og nam 3.000 tonnum. Sala á frystri ýsu jókst um 88% og varð næstum 6.000 tonn að andvirði 8 milljóna sterlingspunda, jafnvirði 1.500 milljóna íslenskra króna.