þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn draga úr grásleppuveiðum

10. mars 2009 kl. 12:22

Norðmenn ætla að takmarka grásleppuveiðar í vor vegna ótta við hrun í stofninum. Gert er ráð fyrir að aflinn minnki um þriðjung og að færri bátar fái leyfi til veiða en í fyrra. Jafnframt er reiknað með að verð fyrir hrognin haldist stöðugt.

Norska hafrannsóknarstofnunin leggur til að dregið verði úr grásleppuveiðum í vor. Mælingar sýna að nýliðun í stofninum í lítil og að veiðin í fyrra hafi verið meiri en vit var í.  Þá var 675 tonnum að hrognum landað. Það eru um 4500 tunnur af verkuðum hrognum.

Núna er lagt til að færri báta fái veiðileyfi í vor og að aflinn verði ekki meiri en 3000 tunnur eða þriðjungi minni en í fyrra. Á vertíðinni í fyrra höfðu ríflega 300 bátar veiðileyfi.

Enn hefur ekki verið samið um verð til sjómanna.  Þó er almennt búist við að það verði svipað og í fyrra en þá var lágmarksverð jafnvirði 60 þúsund íslenskar krónur á tunnuna.  Hins vegar ríkir óvissa um stöðuna á mörkuðunum. 

Ríkisútvarpið (ruv.is) skýrði frá þessu.