sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn æfir yfir brottkasti ESB-skipa

13. ágúst 2008 kl. 09:27

Ásakanir um ?umhverfisglæpi?

Norskir fjölmiðlar fara nú harkalegum orðum um framferði ESB-skipa við fiskveiðar eftir að breskur togari varð uppvís að því á dögunum að kasta fiski í sjóinn.

Fiskurinn var veiddur í norskri lögsögu þar sem brottkast er ólöglegt. Um leið og skipið var komið í lögsögu ESB var fisknum hent en engin viðurlög eru við því þar.

Í þessu eina tilviki var 5 tonnum af fiski hent en fullyrt er í sumum norskum fjölmiðlum að ESB-skip kasti jafnmiklum fiski í sjóinn og þau koma með að landi.

Því er slegið upp í fyrirsögnum að ESB-skip fremji glæpi gegn umhverfinu. Helga Pedersen, sjávarútvegsráðherra Noregs, segir í samtali við norska blaðið Fiskaren að málið sé litið alvarlegum augum enda sé brottkast á fiski ein alvarlegasta ógnunin við sjálfbærar veiðar.

Hún lýsti sérstökum áhyggjum yfir brottkasti á þeim fisktegundum í Norðursjó sem Norðmenn nýta sameiginlega með ESB.

„Við ætlum að herða reglur um brottkast erlendra skipa sem hafa heimild til að veiða í norskri lögsögu. Við munum setja sem skilyrði fyrir veiðileyfum erlendra skipa að þau kasti ekki verðmætum fiski í sjóinn sem veiddur er hér. Jafnframt mun Noregur fara fram á að strangari reglur verð settar gegn brottkasti í tengslum við samninga við ESB í haust um kvótaúthlutun úr sameiginlegum fiskstofnum,“ segir Helga Pedersen í samtali við Fiskaren.