mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn óttast 20 milljarða tekjutap vegna makrílbanns

5. október 2009 kl. 15:00

Útlit er fyrir að norskar útgerðir verði fyrir um eins milljarðs króna tekjutapi, sem samsvarar rúmum 20 milljörðum íslenskra króna, ef banni við makrílveiðum, sem Evrópusambandið setti með litlum fyrirvara, verður ekki aflétt.

Á vef IntraFish kemur fram að á fimmtudaginn í síðustu viku hefði 30 norskum skipum verið vísað út úr lögsögu ESB þar sem þau voru við makrílveiðar.

Norsk stjórnvöld segja að þessi aðgerð komi þeim í opna skjöldu og að hún sé klárlega brot á tvíhliða samningum um fiskveiðar milli Noregs og ESB.

Sendiherra Noregs hjá ESB afhenti framkvæmdastjórn ESB formleg mótmæli strax eftir að norsku fiskimennirnir voru gerðir afturreka. Talsmaður norskra útvegsmanna segir að Noregur muni verða af um einum milljarði norskra króna í útflutningstekjur verði ekkert að gert.

Norska sjávarútvegsráðuneytið mun á næstu dögum taka málið upp við framkvæmdastjórn ESB.

Á vefnum FIS.com segir að Norðmenn hafi veitt umfram 53 þúsund tonna makrílkvóta sinn í lögsögu ESB. Norsku skipin voru við veiðar við Skotland og skosk stjórnvöld hafi leitað aðstoðar framkvæmdastjórnar ESB.