föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn reisa fiskvinnslu fyrir Rússa á Svalbarða

16. september 2009 kl. 15:00

Rússneska fiskveiðiráðið hefur í hyggju að byggja upp fiskvinnslu í Barentsburg á Svalbarða og gengið hefur verið frá samningi við norska verktaka um smíði fiskvinnsluhúss.

Barentsburg er annar stærsti bær á Svalbarða. Íbúar eru um 400, nær eingöngu Rússar og Úkraínumenn. Bærinn hafði mikla þýðingu fyrir Rússa í kalda stríðinu.

Fiskiðjuverið verður byggt fyrir rússneska ríkisfyrirtækið Artikugol sem stundað hefur kolagröft þarna frá árinu 1932.

Markmiðið með nýju fiskvinnslunni er að auðvelda rússneskum fiskiskipum að losa sig við afla sem veiðist á þessu svæði. Einnig á fiskvinnslan að stuðla að atvinnuuppbyggingu í Barentsburg.

Norskir sérfræðingar hafa verið fengnir til verksins og verður fiskvinnslan byggð samkvæmt norskum stöðlum og gæðakröfum. Kostnaðaráætlun fyrir verkið hljóðar upp á 617.400 evrur, eða um 110 milljónir króna íslenskar.

Heimild: Fiskeribladet/Fiskaren o.fl.